Innlent

Eigandi íshellisins rólegur þótt ríkið og bændur bítist um Langjökul

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sigurður Skarphéðinsson, frramvæmdastjóri Icecave, utan við ísgöng félagsins í 1.260 metra hæð yfir sjávarmáli. Vísindanefnd hefur sagt að árið 2090 verði rúmmál Langjökuls aðeins 15 prósent af því sem það var 1990.
Sigurður Skarphéðinsson, frramvæmdastjóri Icecave, utan við ísgöng félagsins í 1.260 metra hæð yfir sjávarmáli. Vísindanefnd hefur sagt að árið 2090 verði rúmmál Langjökuls aðeins 15 prósent af því sem það var 1990. Fréttablaðið/Stefán
Framkvæmdastjóri Icecave segir það ekki munu hafa áhrif á rekstur nýs íshellis félagsins í Langjökli fái ríkið fram kröfu sína um eignarhald á jöklinum.

Eins og fram hefur komið áætlar Icecave að opna mikinn íshelli sinn í landi Geitlands í Langjökli 1. júní í sumar. Er það gert með leyfi jarðeigenda á svæðinu. Eins og ríkið gera jarðeigendur umhverfis Langjökul í Sjálfseignastofnun um Arnarvatnsheiði og Geitland kröfu fyrir óbyggðanefnd um eignarhald á jöklinum á þessum slóðum.

„Við erum með samning við landeigendur sem er löglegur. Þegar ríkið tekur yfir þjóðlendur þá hafa þeir tekið yfir gilda samninga um landnotkun á svæðinu. Þetta ætti því ekki að hafa áhrif,“ svarar Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Icecave, spurður um hugsanleg áhrif þessa máls á stöðu Icecave.

Þjóðlendumálum er nú lokið á stærstum hluta landsins. Niðurstaðan varðandi alla meiriháttar jökla hefur til þessa verið ríkinu í vil þrátt fyrir kröfur frá öðrum. Þetta á til dæmis við um Vatnajökul, Hofsjökul, Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Búast má við að Óbyggðanefnd úrskurði síðar á árinu um þetta svæði. Eftir það getur tekið við málarekstur fyrir dómstólum.

Varðandi umhverfisáhrif af umstanginu í kring um ísgöngin segir Sigurður fjögurra ára ferli liggja að baki framkvæmdinni. Allt sé gert með leyfum frá viðeigandi opinberum aðilum. Vissulega séu notaðar vélar knúnar olíu við útgröftinn en að öllu sé farið með gát og ströngum reglum fylgt til að hindra óhöpp.

„Þetta er eins og að taka einn dropa úr baðkari,“ segir Sigurður um ísmagnið sem grafið hefur verið út úr jöklinum. Vísar hann til þess að jökullinn allur sé 200 milljónir rúmmetra en að grafnir séu út aðeins 5 þúsund rúmmetrar af ís.

Þá segir Sigurður að ef öll tæki, tól og aðrir hlutir yrðu fjarlægð liði ekki á löngu þar til allt yrði sem fyrr. „Þá er ekkert manngert eftir heldur bara hola sem mun með tímanum sökkva í jökulinn og hverfa,“ segir framkvæmdastjóri Icecave. Félagið er í eigu Landsbréfa sem er dótturfélag Landsbankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×