Innlent

Fjögur tilfelli falsaðra matvæla á Íslandi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Valli
Tollstjóri ásamt Matvælastofnun tóku þátt í alþjóðlegu átaki Interpol og Europol gegn eftirlíkingum og fölsuðum matvælum.

Aðgerðinni, sem kallast Opson IV, er ætlað að leggja hald á ólögleg matvæli og drykkjarföng sem heilsufarsleg hætta gæti stafað af.

Samkvæmt vef Tollstjóra komu upp fjögur mál hér á landi í tengslum við aðgerðina. Frekari upplýsingar fást hvorki frá tollstjóra né Matvælastofnun um tilfellin hér á landi meðan rannsókn er enn í gangi.

„Mér þykir það óeðlilegt að svona mál sé ekki uppi á borðinu,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

„Fyrst að það er ekki gefið upp gef ég mér það að yfirvöld tryggi það að þessar vörur séu þegar farnar út af markaði. Ég geng út frá því. Ef sú er ekki raunin geri ég kröfu um að neytendur verði upplýstir svo þeir hafi vitneskju um hvaða vörur þurfi að varast,“ segir Jóhannes.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem aðgerð af þessu tagi hefur verið framkvæmd. Árið 2012 lögðu tollayfirvöld hér á landi hald á ólögleg matvæli, þar á meðal töluvert magn af niðursoðinni mjólk.

Samkvæmt vef Interpol er aðgerðin sú umfangsmesta til þessa og magn ólöglegs varnings sem hald var lagt á aldrei verið jafn mikið. Aðgerðin náði til 47 ríkja um allan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×