Innlent

Skemmtiferðaskip skila fimm milljarða tekjum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Farþegar skemmtiferðaskipa versla að meðaltali fyrir 79 evrur hver á Íslandi.
Farþegar skemmtiferðaskipa versla að meðaltali fyrir 79 evrur hver á Íslandi. Fréttablaðið/GVA
Stjórn Cruise Iceland, samtaka fyrirtækja sem þjónusta skemmtiferðaskip, segja Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra ekki fara með rétt mál um þýðingu farþega skipanna fyrir íslenska hagkerfið.

Á síðasta stjórnarfundi Cruise Iceland kom fram gagnrýni á Ragnheiði Elínu vegna ummæla hennar á fundum um náttúrupassa. „Þar hefur ráðherrann margendurtekið að farþegar skemmtiferðaskipa skili engu til íslenska hagkerfisins,“ segir í fundargerð stjórnarinnar sem samþykkti að óska eftir fundi með Ragnheiði Elínu og leggja þar fram gögn úr könnunum sem unnar hafa verið fyrir Cruise Iceland.

Segir stjórnin að samkvæmt rannsókn sem Peter Wild hafi unnið fyrir Ísafjörð og Akureyri 2013 og fyrir Reykjavík 2014 sé beinn ávinningur íslenska hagkerfisins vegna verslunar farþega og áhafnar skemmtiferðaskipa tæpir 2,7 milljarðar króna.

„Þegar óbein efnahagsleg áhrif eru metin í viðbót við beinu áhrifin eru heildaráhrifin 31,5 milljónir evra eða sem samsvarar 4.977.000.000 íslenskum krónum,“ segir stjórn Cruise Iceland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×