Innlent

Læknar stjórna neyslu – ekki verðið

svavar hávarðsson skrifar
Fullyrt er að ábyrgð læknisins sé alger, enda beri hann ábyrgðina á ávísunum lyfja.
Fullyrt er að ábyrgð læknisins sé alger, enda beri hann ábyrgðina á ávísunum lyfja. nordicphotos/gettyimages
„Eðlilegast væri að læknar væru ekki að semja við sjúklinga um ávísanir á ávanabindandi lyf. Þeir hafa ávísunarréttinn og þar með ábyrgðina. Ef þeir telja sjúkling vera að fara fram á eitthvað sem þeir telja ekki eiga við, þá felur rétturinn í sér þá skyldu að segja nei,“ segir Ingunn Björnsdóttir, dósent í félagslyfjafræði við Óslóarháskóla, um frétt frá lyfjateymi Embættis landlæknis í fyrri viku.

Verð á töflunni

Í fréttinni segir að lyfjateymið, sem sinnir eftirliti með ávísunum ávanabindandi lyfja, hafi skilað inn tillögum um breytt viðmiðunarverð til að bæta ávísanir ávanabindandi lyfja. „Til að sporna við óhóflegum ávísunum þessara lyfja er það tillaga teymisins að töfluverð sem flestra ávanabindandi lyfja verði því sem næst óháð pakkningastærð.“

Þar segir jafnframt að eðlilegast væri að „læknar væru ekki settir í þá stöðu að semja við sjúklinga um ávísanir ávanabindandi lyfja eftir því hvað þau kosta“, og til þeirra orða vísar Ingunn hér að ofan.

Ingunn, sem sat í þessu sama lyfjateymi í um eitt og hálft ár, segir að þetta útspil standist ekki skoðun. „Enginn sjúklingur situr og karpar við lækni um skráð verð á lyfinu. Sjúklingarnir lesa ekki verðskrána og hafa fæstir hugmynd um að hún sé til,“ segir Ingunn.

Á villigötum

Um tillöguna segir Ingunn: „Þarna eru þeir á villigötum því að teymi landlæknis á Íslandi hefur ekkert að segja um verðákvarðanir stóru lyfjafyrirtækjanna. Fyrirtækin ráða því hvaða lyf þau sækja um að skrá á Íslandi og hvaða verð. Alls staðar á Norðurlöndunum eru minni pakkningar hlutfallslega dýrari en stærri, séu minni pakkningarnar yfir höfuð í boði. Afgreiðsla verðumsókna er á borði lyfjagreiðslunefndar sem fer eftir lögum og reglum þar um. Hún hefur ekki frítt spil heldur, svo að svona tilmæli breyta engu, hafa enga vigt eða áhrif.“

Ingunn Björnsdóttir
„Málið á viðkvæmu stigi“

Í fyrrnefndri frétt kemur ekki fram hvar tillögurnar voru lagðar fram. Það fæst heldur ekki gefið upp, en í skriflegu svari embættisins segir að „málið sé á viðkvæmu stigi en auk skriflegra tillagna hefur verið fundað með hlutaðeigandi aðilum um málið.“

Ólafur B. Einarsson, sérfræðingur hjá landlækni og einn þriggja sem skipa teymið, segir að það sé ekki litið svo á að verðið sé sá þáttur sem skipti einn máli um það hversu miklu er ávísað af ávanabindandi lyfjum – erfitt sé að ákvarða hversu miklu máli verðmunur lyfja skiptir. Rétt sé að sá læknir sem ávísar lyfjunum beri ábyrgð á að ávísunin sé rétt, „en sú gagnrýni sem læknar fá vegna ávísana er oft óbilgjörn. Þeir eru oft í þeirri aðstöðu að sinna þörfum fólks sem segir ekki allan sannleikann eða hreinlega gerir sér upp veikindi til að fá meira ávísað af lyfjum,“ segir Ólafur og bætir við að tillögurnar um verð lúti að því að afgreiðsla lyfja verði í hvert sinn miðuð að þörfum einstaklings í það skiptið.

„Ef allt væri eðlilegt kostaði pillan í minni pakkningum sama og pillan í þeirri stærri en í raun má velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að sömu lögmál gildi um verð ávanabindandi lyfja og verð morgunkorns,“ segir Ólafur.

Stiklað yfir frétt lyfjateymis landlæknis

  • Svefnlyfjanotkun hefur lengi verið mest á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Mesta notkun svefnlyfja á Íslandi er í flokknum Benzódíazepínskyld lyf.
  • Eitt af því sem gæti spilað inn í sölu lyfjanna er verð en munur á töfluverði í mismunandi pakkningum er verulegur.
  • Miðað við lyfjaverðskrá frá 2012 kostar 10 töflu pakkning um 1.310 krónur (131 kr. taflan) en 30 stykkja pakkning kostar um 1.260 kr. (42 kr. taflan).
  • Þessi mikli verðmunur á pakkningum veldur því að mun meira er selt af 30 stykkja pakkningum sem er á margan hátt óeðlilegt miðað við það að lyfið er ekki ætlað til langvarandi notkunar.
  • Undir eðlilegum kringumstæðum ættu flestar ávísanir að vera af 10 stykkja pakkningum vegna þess að sérlyfjaskrá segir að meðferðin eigi að vera eins stutt og hægt er.
  • Svefnlyf eru ekki einu ávanabindandi lyfin með ólíkt töfluverð eftir stærð pakkninga. Á Íslandi er notkun svefnlyfja, verkjalyfja, róandi- og kvíðastillandi lyfja og þunglyndislyfja sú mesta á Norðurlöndunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×