Innlent

Flutningur bæjarskrifstofu skapar sparnað

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Ármann Kr ólafsson
Ármann Kr ólafsson
„Eftir nokkra skoðun innandyra hjá okkur komumst við að því að hagkvæmni gæti verið nokkur, sérstaklega ef horft er á peningahliðina,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjastjóri Kópavogs.

Umtalsverðri vinnu hefur verið varið í að greina kosti þess að flytja bæjarskrifstofu Kópavogs úr Fannborg í Norðurturn við Smáralind. Bæjarstjórn Kópavogs mun á næstunni taka fyrir tillögu um að veita Ármanni umboð til að ganga til samninga um kaup á nýju húsnæði.

Ármann segir nýja rýmið mun nútímalegra.Fréttablaðið/Vilhelm
„Í þessu felst fyrst og fremst hagkvæmni, rýmið nýtist mun betur. Við erum að fækka fermetrum úr um það bil 4.700 í 3.500. Við förum úr þessu hólfaða skrifstofurými og það verður meira um opið rými. Þetta held ég að henti betur, auki flæði meira og skapi betri þjónustu fyrir bæjarbúa,“ segir Ármann.

Fjárhagslegur ábati af flutningunum gæti verið um 2 milljarðar króna á 25 árum. Þá er líklegt að sala fasteigna bæjarins við Fannborg muni skapa minni lánsþörf fyrir bæinn.

„Lánsþörfin verður minni með tilliti til sölu á gömlu skrifstofunni. Þörfin væri þá upp á núll til 345 milljónir til skamms tíma en til langs tíma skapar þetta sparnað sem er mjög hagkvæmt fyrir bæinn og skapar fjármuni sem má nýta til að greiða niður skuldir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×