Innlent

Sigldi í kringum hnöttinn til að vekja athygli á MS-sjúkdómnum

Linda Blöndal skrifar
Tuttugu og átta ára gamall Íslendingur sem hefur glímt við MS sjúkdóminn í mörg ár segir hnattsiglingu í þágu vitundarvakningar um sjúkdóminn hafa gefið sér aukinn kraft og sjálfstæði. Hann var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær en fréttina má sjá hér að ofan.

Bjarni Dagbjartsson sem býr í Noregi lauk nýlega þátttöku í alþjóðlegri hnattsiglingu á 67 feta seglskútu sem nefnist Oceans of Hope. Nafn sem má útleggja sem Hafsjó vonar. Um borð í seglskútunni eru, auk fastra áhafnarmeðlima, að jafnaði fjórir til sjö einstaklingar með MS. Skútan lagði úr höfn í Kaupmannahöfn í júní í fyrra og mun leggja að baki 61 þúsund kílómetra en komið er við í um 30 höfnum.

Sýnir hvers fólk með MS er megnugt

Bjarni fékk fyrstu einkenni MS fimmtán ára og greindist með sjúkdóminn árið 2011 og í fyrra höfðu veikindin dregið úr honum mikinn þrótt. Bjarni sem á erfitt með að halda jafnvægi og að ganga, kom í land á föstudag eftir þriggja vikna siglingu yfir opið haf.

Rúmlega þrettán hundruð sjómílur með austurströnd Ástralíu, frá Sidney til borgarinnar Cairns þar í landi. Þátttaka hans í siglingunni hefur meðal annars vakið athygli í norskra sjónvarpinu. Siglingu Oceans of Hope er ætlað að sýna fram á hvers fólk með MS er megnugt þrátt fyrir erfiðan og langvinnan sjúkdóm, sem eins og í tilviki Bjarna fer versnandi.

Vildi athuga hvar mörkin eru

„Þetta var þvílík upplifun. Þetta var mjög krefjandi. Ég á mjög erfitt með að labba og jafnvægið og þegar maður er á seglbát þá reynir mjög mikið á jafnvægið og að standa í lappirnar,“ segir Bjarni í samtali við Stöð 2.

Siglingin í kringum jörðina er nú hálfnuð.

„Ég hef aldrei siglt áður og mig langaði bara að athuga hvar mörkin væru,“ segir Bjarni.

Bjarni vill með ferð sinni safna fé til rannsókna á MS en hann heldur nú söfnun á vefnum svo aðrir MS sjúklingar geti farið í siglingar eins og hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×