Innlent

Dæmdur í fjórtán mánaða fangelsi fyrir innbrot á Egilsstöðum

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt sakavottorði mannsins hefur honum átta sinnum verið gerð refsing frá árinu 2008.
Samkvæmt sakavottorði mannsins hefur honum átta sinnum verið gerð refsing frá árinu 2008. Vísir/Hari/Getty
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 26 ára karlmann í fjórtán mánaða fangelsi fyrir að hafa brotist inn í húsnæði tveggja fyrirtækja á Egilsstöðum og umferðarlagabrot.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín, en fresta skal fullnustu ellefu mánaða af refsingunni og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Þá var honum svipt ökurétti ævilangt.

Í ákæru segir að maðurinn hafi í félagi við annan mann brotist inn í bensínstöð á Egilsstöðum í desember 2011 og stolið þaðan um 50 þúsund krónum, og mikið magn vara, samtals að verðmæti 550 þúsund krónur. Síðar sömu nótt braust maðurinn inn í húsnæði fyrirtækis í bænum og stal þaðan þremur fartölvum, myndavélabúnaði og fleiru.

Maðurinn var einnig dæmdur fyrir að hafa ekið bíl undir áhrifum fíkniefna.

Samkvæmt sakavottorði mannsins hefur honum átta sinnum verið gerð refsing frá árinu 2008, meðal annars fyrir fíkniefnaakstur, líkamsárás og brot gegn valdstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×