Innlent

Mannleg mistök ollu því að varðskipið Þór hélt vöku fyrir Vesturbæingum

Birgir Olgeirsson skrifar
Landhelgisgæslan biðst afsökunar á að hafa raskað nætursvefni fjölda fólks.
Landhelgisgæslan biðst afsökunar á að hafa raskað nætursvefni fjölda fólks. Vísir/Daníel/Getty
„Hvað á að þýða að vekja borgina með því að blása stanslaust í skipsflautu,“ spurði fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason þegar klukkan var gengin 21 mínútur í fjögur í nótt og ljóst að margir Vesturbæingar vöknuðu við þennan hávaða.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði frá því í dagbók sinni að ítrekaðar tilkynningar hefðu borist um háværa skipsflautu frá Reykjavíkurhöfn og ástæðan sögð vera bilun í brunakerfi í skipi í Reykjavíkurhöfn.

Það sem var ósagt í þessu máli er að umrætt skip er varðskipið Þór og var ekki um bilun í brunakerfi að ræða heldur ollu mannleg mistök þessum hávaða.

Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.
„Eldvarnakerfi skipsins er tengt við skipsflautuna og sú tenging er virkjuð meðan skipið er úti á sjó. Svo er það bara í gátlista þegar komið er í höfn að aftengja kerfið og það bara láðist, mannleg mistök,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni.

Þegar klukkan var gengin 25 mínútur í fjögur í nótt var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar látin vita af Neyðarlínunni og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að fjöldi fólks hefði kvartað undan skipsflautu. Fjórum mínútum síðar, eða klukkan 03:29, var búið að ná í vaktmann Landhelgisgæslunnar sem hafði slökkt á brunakerfinu.

Í dagbók lögreglunnar er umrætt tilvik skrásett klukkan 03:18 þannig að ekki er úr vegi að áætla að heyrst hafi í skipsflautunni í rúmlega tíu mínútur í nótt. Ásgrímur segist geta vel trúað því að töluverður hávaði hafi borist frá varðskipinu Þór á meðan þessu stóð. 

„Það hefur verið svolítið kyrrt í nótt þannig að ég get alveg trúað því að það hafi verið hávaði í Vesturbænum í nótt. Þannig að við biðjum Vesturbæinga afsökunar.“

Meðfylgjandi myndband var tekið upp á Ásvallagötunni í nótt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×