Innlent

Fjör á hátíð hafsins

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í dag víða um land. Sjómannadeginum var fagnað í Reykjavík í sjötugasta og sjöunda skipti.

Dagskráin hófst með athöfn við Minningaröldur Sjómannadagsins í Fossvogskirkjugarði þar sem séra Hjálmar Jónsson flutti minningarorð og bæn. Heiðursvörð stóðu starfsmenn Landhelgisgæslunnar og hermenn af frönsku skútunni Etoile.

Sjómannamessa var svo haldin í Dómkirkjunni þar Séra Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur prédikaði og minntist drukknaðra sjómanna. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson tók þátt í athöfninni en fyrir athöfnina gaf hann sér tíma til þess að sitja fyrir í myndatöku með erlendum ferðamönnum sem fylgdust með.

Meðan á athöfninni stóð var blómsveigður lagður á leiði óþekkta sjómannsins.

Skemmtidagskrá Sjómannadagsins hófst svo með skrúðgöngu frá Hörpu og niður í Grandagarð. Í miðri skrúðgöngu ruddist Sóknarhópurinn í skrúðgönguna og tók sér stað fremst þar sem þeir héldu á líkkistu og báru skilti með orðunum jörðum kvótann.

Ungir sem aldnir skemmtu sér á hátíð hafsins þar sem sjá mátti hina ýmsu fiska sem Hafrannsóknarstofnun hefur safnað saman og þóttu mörgum sumir þeirra vera ansi óhugnalegir að sjá.

Fimm sjómenn voru heiðraðir í tilefni dagsins, þeir Bjarni Sveinsson, Hróbjartur Jón Gunnlaugsson, Hálfdán Henrysson, Benedikt Jón Ágústsson og Bjarni Sveinbjörnsson sem allir eiga sér langa sjómannssögu. Hálfdán Henrysson var byrjaði á sjó árið 1959 og vann í 26 ár hjá Landhelgisgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×