Innlent

Fólki á framfærslu sveitarfélaga fækkar vegna betra atvinnuástands í landinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Byggingaframkvæmdir í Kórahverfi. Atvinnuástandið á Íslandi hefur snarbatnað á örfáum árum og er núna einungis um 2,7 prósent.
Byggingaframkvæmdir í Kórahverfi. Atvinnuástandið á Íslandi hefur snarbatnað á örfáum árum og er núna einungis um 2,7 prósent. vísir/vilhelm
Fólki sem þiggur fjárhagsaðstoð fækkar í stærstu sveitarfélögum landsins. Aðalsteinn Sigfússon, sviðsstjóri velferðarsviðs í Kópavogi, segir að á þessu ári hafi útgreidd fjárhagsaðstoð minnkað um átta prósent. Fækkun á einstaklingum sem nýta fjárhagsaðstoðina sé talsverð umfram það.

Guðrún Sigurðardóttir, hjá fjölskyldudeild Akureyrar, segir að þróunin þar sé jafnframt sú að viðtakendum hafi fækkað. Séu fyrstu níu mánuðir þessa árs bornir saman við sama tímabil árið 2014 sé fækkunin um 55. Þeir voru 359 árið 2014 en fara í 304 eftir fyrstu níu mánuði þessa árs.

Ástæða bættrar stöðu er minnkandi atvinnuleysi. „Fjárhags­aðstoðin hefur alltaf haft mikla fylgni við atvinnuástandið þannig að mér finnst líklegt að það sé stóra skýringin,“ segir Guðrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldudeildar hjá Akureyrabæ. Hún segir að lögð sé mikil áhersla á að koma fólki í vinnu.

Guðrún segir ýmis virkniúrræði starfrækt fyrir fólk sem er atvinnulaust. „Við erum með fjölsmiðju fyrir unga fólkið og starfsendurhæfingu Norðurlands fyrir fólk á öllum aldri,“ segir Guðrún. Að auki sé sveitarfélagið í miklu samstarfi við Vinnumálastofnun.

135 einstaklingar fengu fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ í nóvember síðastliðnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Rannveigu Einarsdóttur, sviðsstjóra Fjölskyldudeildar Hafnarfjarðarbæjar, lækkaði fjárhæð framfærslustyrks um 18 prósent á tímabilinu september til nóvember miðað við sama tímabil í fyrra. Þeim sem fá framfærslu fækkaði um 26 prósent á þessu sama tímabili.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á föstudag hefur þeim sem nota fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg fækkað um 10,9 prósent í ár. Þeir voru 3.080 á tímabilinu janúar til október 2014 en fækkaði niður í 2.745 á sama tímabili í ár.

„Það sem er sérstakt fagnaðar­efni er að ungu fólki er að fækka mjög mikið hjá okkur og það er að komast í vinnu,“ sagði ­Kristjana Gunnars­dóttir, sviðsstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún sagði að þróunina mætti fyrst og fremst skýra með því að möguleikar á atvinnumarkaði hefðu aukist og dregið úr atvinnuleysi.

Þegar tölur frá Vinnumálastofnun eru skoðaðar sést að atvinnuleysi hefur minnkað snarlega á tveimur árum. Í nóvember var það skráð 2,7 prósent. Í nóvember í fyrra var það hins vegar 3,3 prósent og 4,1 prósent í nóvember 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×