Innlent

Námsárangur í grunnskóla Vestmannaeyja sagður óásættanlegur

garðar örn úlfarsson skrifar
Gera á óháða úttekt á ástæðum þess að grunnskólabörn í Vestmannaeyjum eru undir landsmeðaltali á samræmdum prófum.
Gera á óháða úttekt á ástæðum þess að grunnskólabörn í Vestmannaeyjum eru undir landsmeðaltali á samræmdum prófum. Fréttablaðið/Pjetur
Fræðsluráð Vestmannaeyja segir ósættanlegt að nemendur í grunnskóla bæjarins séu undir landsmeðaltali í samræmdum prófum.

Samkvæmt gögnum sem lögð voru fyrir fræðsluráðið í nóvember eru nemendur í 4. og 7. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja undir landsmeðaltali í samræmdum prófum. Tölurnar eru settar fram á kvarðanum 0–60.

„Í 4. bekk var normaldreifða einkunnin í íslensku 27,7 og 29,7 í stærðfræði. Í 7. bekk var einkunnin í íslensku 28,4 og 27,6 í stærðfræði. Í 10. bekk var einkunnin 29 í íslensku, 28,2 í stærðfræði og 26 í ensku,“ kemur fram í fundargerð fræðsluráðsins sem hóf athugun á málinu. Meðal annars voru skoðaðar niðurstöður samræmdra prófa fyrri ára og þær bornar saman við árangur í öðrum skólum og árangur í GRV undanfarin ár.

„Fræðsluráð er meðvitað um að það tekur tíma að bæta skólamenningu og árangur. Á seinustu misserum hefur verið ráðist í aðgerðir sem vafalaust eiga eftir að skila betri árangri í samræmdum mælingum og skólastarfi almennt. Eftir sem áður telur fræðsluráð ljóst að leita beri allra leiða til að bæta árangur GRV og að það sé óásættanlegt að nemendur í Vestmannaeyjum séu undir landsmeðaltali í samræmdum mælingum,“ segir fræðsluráðið.

Af þessum ástæðum segir fræðsluráðið æskilegt að óháður aðili geri faglega úttekt á skólastarfinu í byrjun næsta árs og skili niðurstöðum fyrir vorið. Jafnframt er skólaskrifstofu bæjarins falið að vinna áfram að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×