Innlent

Stjórn Orkuveitunnar hafnaði tilboði í Hellisheiðarvirkjun

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Áhugasamur kaupandi gerði tilboð í Hellisheiðarvirkjun.
Áhugasamur kaupandi gerði tilboð í Hellisheiðarvirkjun. vísir/vilhelm
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafnaði kauptilboði í Hellisheiðarvirkjun.

Kauptilboð í Hellisheiðarvirkjun var tekið fyrir og rætt í stjórn Orkuveitunnar fyrir mánuði síðan, 23. nóvember síðastliðinn.

Stjórn samþykkir samhljóð að þakka fram komið tilboð en felur stjórnarformanni að upplýsa tilboðsgjafa um að engin ákvörðun hefur verið tekin um sölu virkjana samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur,“ hljómar bókun stjórnarinnar í málinu.

Haraldur Flosi Tryggvason
Haraldur Flosi Tryggvason, formaður stjórnar Orkuveitunnar, segist ekkert geta upplýst um hver hafi sett kauptilboðið fram eða hvað hafi í því falist. „Þetta var mjög athyglisvert,“ segir Haraldur Flosi. „En þetta var allt saman bundið miklum trúnaði.“

Að sögn stjórnarformannsins væri ákvörðun um sölu af þessu tagi tekin af eigendum Orkuveitunnar. „Það eru engar vangaveltur í gangi um slíka sölu og stjórnin hefur ekkert umboð til þess að gera eitt né neitt í þá veru. Það væri þá frekar að fara til eigendanna og ræða við þá,“ segir Haraldur Flosi.

Langstærsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur er Reykjavíkurborg. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri hjá borginni, kveðst ekki vita til þess að borginni hafi borist erindi um kaup á Hellisheiðarvirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×