Erlent

Eiríkur Bergmann: "Pólland færist þá nær því að verða lýðræðislíki fremur en eiginlegt lýðræðisríki“

Atli Ísleifsson skrifar
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir að á síðustu árum höfum við séð Rússland og Ungverjaland færast frá frjálslyndu lýðræði eftir fall kommúnismans og yfir í stöðugt harðara stjórnarfar.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir að á síðustu árum höfum við séð Rússland og Ungverjaland færast frá frjálslyndu lýðræði eftir fall kommúnismans og yfir í stöðugt harðara stjórnarfar. Vísir
Ný ríkisstjórn Póllands hefur sætt mikilli gagnrýni frá því að hún tók við völdum um miðjan síðasta mánuð. Ríkisstjórnin hefur afturkallað skipanir fyrri ríkisstjórnar í stjórnlagadómstól landsins og tekið fjölda umdeildra ákvarðana á fyrstu vikum valdatíðar sinnar.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir að á síðustu árum höfum við séð Rússland og Ungverjaland færast frá frjálslyndu lýðræði eftir fall kommúnismans og yfir í stöðugt harðara stjórnarfar.

„Núna er Pólland á sömu leið að því er virðist. Með því að yfirtaka stjórnlagadómstólinn með því móti sem flokkurinn Lög og réttlæti gerir, herðir framkvæmdavaldið tökin á öðrum valdþáttum og stefnir sjálfu réttarríkinu er í hættu. Pólland færist þá nær því að verða lýðræðislíki fremur en eiginlegt lýðræðisríki.“

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnarflokksins Laga og réttlætis og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands.Vísir/AFP
Stjórnmál ganga í bylgjum

Eiríkur bendir á að stjórnmál gangi oft í bylgjum og að nú gangi yfir ákveðin gagnbylgja í átt frá þeirri frjálsræðisbylgju sem gekk yfir Austur-Evrópu með falli kommúnismans á sínum tíma.

„Þar var lögð mikil áhersla á lýðræði, opið samfélag, markaðsfrelsi, þátttöku í alþjóðastofnunum og svo framvegis. Núna sjáum við bylgju vera að rísa í hina áttina. Í gegnum allan þennan tíma höfum við orðið vitni að miklum sveiflum í Austur-Evrópu á milli kosninga – mun meiri en við þekkjum í Vestur-Evrópu,“ segir Eiríkur.

Pólland er fjölmennasta aðildarríki ESB í Austur-Evrópu, með um 40 milljónir íbúa, og með stærstan efnahag. Landið hefur verið flaggskip sambandsins í stækkun þess til austurs og hefur oft verið vísað í Pólland og bent á að hægt sé að dreifa lýðræðinu um lönd og koma á réttarríki. Stöðugleiki landsins, hagsæld og jákvætt viðhorf í garð Evrópusamrunans hefur skilað sér í að það nýtur virðingar á alþjóðavettvangi og í kreðsum diplómata. Nú eru hins vegar blikur á lofti.

Úr sal pólska þingsins í Varsjá.Vísir/AFP
Hinn sterki leiðtogi kominn aftur

Eiríkur segir að í kosningum í Austur-Evrópu hafi orðið sveiflur frá því að sósíalistar séu kosnir í yfirgnæfandi mæli yfir í það að harðlínuhægrimenn nái meirihluta, fram og til baka.

„Nú eru hins vegar svolítið alvarlegar blikur á lofti sem hafa falist í einhvers konar endurkomu alræðisstjórnarfars – ekki sams konar og var í kommúnistaríkjunum í gamla daga og ekki eins langt gengið – en alla vega í þá áttina. Þar er þrengt að hinum lýðræðislegu stofnunum og hinn sterki leiðtogi er einhvern veginn kominn aftur til skjalanna og farinn að sölsa undir sig völdin.“

Hann segir að þetta hafi gengið lengst í Rússlandi Pútíns, en að við höfum einnig fylgst með sambærilegri þróun í Ungverjalandi. „Hún hefur verið mjög ískyggileg að undanförnu þar sem Victor Orban forsætisráðherra hefur verið að taka til sín ríkisvaldið – ekki bara framkvæmdavaldið heldur hefur hann breytt stjórnarskránni á öðrum þáttum.“

Fyrr á árinu vann Andrzej Duda, frambjóðandi Laga og réttlætis,sigur í forsetakosningum og tók við forsetaembættinu af Bronisław Komorowski, samflokksmanni Ewu Kopacz og Donalds Tusk.Vísir/AFP
Ríkisstjórnin í stríð við stjórnlagadómstólinn

Eiríkur segir menn nú óttast að Pólland gæti verið á leiðinni í sömu átt. „Það er frekar ógnvekjandi fyrir Evrópu, því Pólland er algert lykilríki í álfunni. Með þessari aðgerð pólsku ríkisstjórnarinnar að draga tilnefningar í stjórnlagadómstól landsins til baka, óttist menn að verulega sé verið að þrengja að lýðræðinu þar sem framkvæmdavaldið er farið að hafa þessi afskipti af dómsvaldinu.“

Hann segir ríkisstjórnina nú farna í stríð við stjórnlagadómstólinn. „Kaczynski [leiðtogi Laga og réttlætis] hefur lýst því yfir að það sem sé að í Póllandi sé þessi dómstóll og því ætli hann að breyta. Flokkurinn Lög og réttlæti er búinn að koma fimm af sínum mönnum inn í réttinn og það virðist vera galli í lögunum sem gerir þeim þetta á einhvern hátt mögulegt. Þeir hafa lýst því yfir að það sé lykilatriði að ná stjórn á dómstólnum, því annars geti hann afgert allt það sem stjórnin vill koma í gegn. Menn hafa líkt þessu við einhvers konar tilraun til valdaráns, enda eru þeir að breyta stjórnkerfislögum landsins á ýmsan hátt.“

Beata Szydło tók við embætti forsætisráðherra Póllands um miðjan síðasta mánuð.Vísir/AFP
Kaczynski stýrir málum á bakvið tjöldin

Beata Szydło var forsætisráðherraefni Laga og réttlætis og tók við embættinu af Ewu Kopacz um miðjan nóvember í kjölfar sigurs flokksins í þingkosningum í október.

Lög og réttlæti hafði fyrir kosningasigurinn verið í stjórnarandstöðu um átta ára skeið. Fyrr á árinu vann frambjóðandi flokksins, Andrzej Duda, sigur í forsetakosningum og tók við forsetaembættinu af Bronisław Komorowski, samflokksmanni Kopacz og Donalds Tusk, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi forseta leiðtogaráðs ESB.

Eiríkur segir Jaroslaw Kaczynski, leiðtoga Laga og réttlætis og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, þó gegna algeru lykilhlutverki við stjórn landsins. „Hann virðist stýra þessu á bakvið tjöldin og er mjög áberandi í umræðunni.“

Hann segir athyglisvert að þau öfl sem skópu umbæturnar við fall kommúnismans – menn eins og Leszek Balcerowicz sem stýrðu efnahagsumbótunum á sínum tíma – séu mjög ákafir í þessum mótmælum gegn aðgerðum nýju ríkisstjórnarinnar. Þetta er því afturhvarf gegn umbótastefnunni sem varð í kjölfar falls kommúnismans.“

Ewa Kopacz tók við embætti forsætisráðherra Póllands á síðasta ári af Donald Tusk þegar hann tók við embætti forseta leiðtogaráðs ESB.Vísir/AFP
Óútreiknanlegir

Lög og réttlæti var síðast við völd í landinu á árinum 2005 til 2007 þar sem stjórnin hafði orð á sér fyrir að vera óútreiknanleg, auk þess að samskipti Póllands og Þýskalands á þessum tíma voru sérstaklega stirð. Tvíburabræðurnir Jaroslaw og Lech Kaczynski gegndu um tíma embætti forsætisráðherra (Jaroslaw) og forseta (Lech).

Tæpum þremur árum eftir að Lög og réttur beið ósigur í þingkosningum árið 2007, fórst forsetinn Lech Kaczynski í flugslysi í Smolensk í Rússlandi ásamt 88 til viðbótar. Margir flokksmenn í Lögum og réttlæti sökuðu rússnesk stjórnvöld og forsætisráðherrann Donald Tusk um að hylma yfir raunverulegar orsakir flugslyssins.

Antoni Macierewicz, einn af þeim sem helst hafði gagnrýnt rannsóknina á Smolensk-slysinu, er nýr varnarmálaráðherra landsins og hefur ríkisstjórnin fyrirskipað nýja rannsókn á slysinu.

Economist greinir frá því að Lög og réttlæti sé mótfallinn auknum réttindum hinsegin fólks og hefur forsetinn Duda beitt neitunarvaldi sínu gegn lögum um kynleiðréttingar af ótta við að óléttar konur gætu leiðrétt kyn sitt og orðið að karlmönnum, áður en þeir fæða barn sitt. Þá hefur Kaczynski sérstaklega varað við að múslimskir flóttamenn geti borið með sér sjúkdóma til landsins, auk þess að orðrómur er uppi um að til standi að draga fyrrum forsætisráðherrann Tusk fyrir rétt.

Tvíburabræðurnir Jaroslaw (til hægri) og Lech Kaczynski (til vinstri) gegndu um tíma embætti forsætisráðherra (Jaroslaw) og forseta (Lech).Vísir/AFP
Getur vel sveiflast til baka

Eiríkur segir að þó að þessi bylgja í átt til alræðis hafi orðið í Póllandi þá þýði það ekki að hlutir geti ekki sveiflast til baka. Hann segir að Kaczynski, Szydło og Duda og þeirra fólk í Lögum og réttlæti hafi einna helst sótt fylgi sitt til hægri manna í landinu og kaþólskra sem eru íhaldssamir í siðferðismálum.

Þá nýtur flokkurinn mikils stuðnings eldri kynslóðarinnar, enda lofaði flokkurinn að lækka eftirlaunaaldur sem fyrri ríkisstjórn hafði áður hækkað.

„Þetta er sem sagt ekki hægra, frjálslynda fylgið. Þetta er frekar hægra afturhald sem byggir á hinum trúarlega og þjóðernislega grunni. Það er þessi eitraða blanda þjóðernishyggju og trúarhyggju sem nær þarna saman og skilar þessum sigri í kosningum,“ segir Eiríkur.

Donald Tusk tók við embætti forsætisráðherra Póllands árið 2007 en sagði af sér embætti á síðasta ári.Vísir/AFP
Athyglisverð staða Donalds Tusk

Eiríkur segir að þessi stefnubreyting pólskra stjórnvalda þurfi ekki að hafa áhrif á stöðu Tusk sem forseta leiðtogaráðs ESB. Tusk gegndi embætti forsætisráðherra Póllands á árunum 2007 til 2014 og var lengi formaður Borgaralegs vettvangs, helsta andstæðings Laga og réttlætis í pólskum stjórnmálum. Hann tók við stöðu forseta leiðtogaráðsins í desember á síðasta ári, þegar annað kjörtímabil Herman van Rompuy var á enda.

„Tusk er ekki fulltrúi einhvers ríkis í leiðtogaráðinu. Þetta fer því alfarið eftir honum sjálfum og með hvaða augum forystumenn annarra ríkja líta á málið. Þó að kastist í kekki milli ESB og Póllands þarf ekki að vera að staða Tusk versni. Það verður einfaldlega að koma í ljós,“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×