Innlent

Hnífaáhugamaður á Akureyri keypti kanínu, batt við brunahana og kveikti í henni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kveikt var í kanínu í Garðabæ í ársbyrjun 2012.
Kveikt var í kanínu í Garðabæ í ársbyrjun 2012. Vísir/Stefán
Karlmaður á sextugsaldri sætir ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra fyrir að hafa þrívegis í nóvember og desember í fyrra, og janúar í ár, haft í fórum sínum hnífa allt að 30 cm að lengd. Aðalmeðferð í málinu fór fram við Héraðsdóm Norðurlands eystra í gær.

Þá er hann ákærður fyrir að hafa bundið lifandi kanínu með vír við brunahana fyrir framan afgreiðslu tryggingafélagsins VÍS við Glerárgötu á Akureyri. Er honum gefið að sök að hafa „aflífað hana á sérstaklega grimmilegan og þjáningafullan hátt með því að hella yfir hana bensíni og kveikja í henni, en kanínuna hafði hann keypt í gæludýrabúð skammt frá vettvangi,“ eins og segir í ákærunni.

Maðurinn var 26. nóvember í fyrra tekinn með 20 grömm af amfetamíni við Nætursöluna á Akureyri en þá var hann einnig með 20,5 cm hníf án þess að lögmæt ástæða væri til. Rúmum tveimur vikum síðar var hann með 22 cm langan hníf í vörslu sinni á leigubílastöð BSO við Strandgötu án ástæðu. Loks var hann með 31 cm langan hníf á bráðamóttöku Sjúkrahúss Akureyrar að kvöldi þriðjudagsins 10. febrúar.

Sem fyrr segir fór aðalmeðferð fram í gær svo reikna má með því að dómur verði kveðinn upp innan fjögurra vikna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×