Skoðun

Tómstundir og nám ungra barna

Jóhanna Einarsdóttir skrifar
Námsaðstæður og uppeldisskilyrði barna hafa tekið umtalsverðum breytingum á undanförnum áratugum. Börn hefja nú flest skólagöngu um tveggja ára aldur þegar þau byrja í leikskóla. Um leið og grunnskólagangan hefst sækir stór hópur barna jafnframt skipulagt æskulýðs- og tómstundastarf. Nám yngstu grunnskólabarnanna og félagsmótun fer nú í auknum mæli fram í gegnum óformlegt nám, t.d. á frístundaheimilum, þar sem börnum gefst kostur á að taka þátt í fjölbreyttu tómstundastarfi, íþróttum, listum, skapandi starfi og leik.

Óformlegt nám

Aukin þekking á námi og þekkingarsköpun barna hefur leitt í ljós mikilvægi þess náms sem fram fer utan formlegra kennslustunda, einkum hvað varðar félagsfærni, virkni og þátttöku barna. Innan frístundaheimila gefst börnum tækifæri til að nýta styrkleika sína og taka þátt í frjálsum leik og skapandi starfi með öðrum börnum. Ef vel er að verki staðið getur dvöl á frístundaheimilum stuðlað að sterkari félagslegri stöðu og eflt sjálfsmynd barna. Frístundaheimilið brýtur upp hefðbundið skólastarf, gefur möguleika á frjálsum leik, auk þess sem sjálfræði og frumkvæði barnanna er oft meira, þar sem þau hafa meiri möguleika á að hafa áhrif á viðfangsefnin. Í Danmörku starfa tómstunda- og félagsmálafræðingar við hlið kennara í leik- og grunnskólum og gegna frístundaheimili m.a. lykilhlutverki í að stuðla að farsælli grunnskólabyrjun og námi barna. Í sumum dönskum sveitarfélögum byrja börn á frístundaheimilum vorið áður en skólagangan hefst og aðlagast því smám saman breyttum aðstæðum.

Tómstundir og nám ungra barna, grunndiplóma

Frístundaheimilin eru mikilvægar uppeldis- og menntastofnanir og er mikið í húfi fyrir framtíð barna að þar starfi vel menntað og hæft starfsfólk. Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur boðið upp á nám í tómstunda- og félagsmálafræði frá árinu 2001. Fyrstu nemar með BA-gráðu voru brautskráðir vorið 2005. Nú um áramót verður í fyrsta sinn boðið upp á grunndiplómanám í faginu með sérstaka áherslu á nám og tómstundir yngstu grunnskólabarnanna.

Markmið nýju námsleiðarinnar er að nemar öðlist þekkingu á uppeldi og menntun ungra barna innan skipulegs frístunda- og skólastarfs og kynnist fjölbreyttum og skapandi leiðum í starfi með börnum. Lögð er áhersla á að nemar tileinki sér fagleg viðhorf til uppeldis og menntunar ungra barna á skólaaldri, með áherslu á lýðræði, jafnrétti, og skapandi starf.

Náminu er ætlað að koma til móts við þarfir samfélagsins fyrir menntað fólk á vettvangi skóla- og frístundastarfs. Námið er skipulagt sem hlutanám í þrjú misseri og er stúdentspróf eða sambærileg reynsla og menntun skilyrði. Námskeiðin eru kennd með sveigjanlegum hætti og geta nemendur valið hvort þeir taka þau í staðnámi eða fjarnámi með staðbundnum lotum.

Grunndiplómanámið er þverfaglegt og taka nemendur helming námskeiða úr tómstunda- og félagsmálafræði og helming úr leik- og grunnskólakennarafræðum. Með aukinni samvinnu þessara námsleiða er komið til móts við nýja tíma og miðlað þekkingu á námi barna og félagsmótun. Jafnframt er lögð áhersla á mikilvægi þess að nám barna sé skipulagt sem heildstætt ferli með samvinnu og samstarfi fagfólks leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Með auknu samstarfi sameina ólíkar fagstéttir krafta sína og stuðla þannig að auknum gæðum í námi og leik barna.




Skoðun

Sjá meira


×