Körfubolti

Helenu vantar bara eitt stig í viðbót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir er í aðalhlutverki í íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta.
Helena Sverrisdóttir er í aðalhlutverki í íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta. Fréttablaðið/Stefán
Auðvitað snýst allt um Helenu Sverrisdóttur í fyrsta leik kvennalandsliðsins í Evrópukeppni í sex ár. Það er ekki nóg með að hún geti náð stóru takmarki í sögu íslenska landsliðsins eða það að hún sé fyrirliði og besti leikmaður í íslenska liðsins heldur eru allar kringumstæðurnar í Miskolc í Ungverjalandi tengdar henni líka.

Helena er nefnilega mætt á sinn gamla heimavöll og hún er að spila á móti sínum gamla þjálfara og á móti mörgum af fyrrverandi liðsfélögum sínum úr atvinnumennskunni.

Helena spilaði með liði DVTK Miskolc, bæði í ungversku deildinni og Evrópukeppni, veturinn 2013-14. Hún leiðir íslenska liðið ekki bara innan vallar heldur getur hún líka farið með stelpurnar í skoðunarferð.

Helena hefur verið stigahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi í meira en tvö ár eða síðan hún bætti stigamet Önnu Maríu Sveinsdóttur á Smáþjóðaleikunum í júní 2013. Helena hefði líklega verið löngu búin að því hefði landsliðið ekki verið lagt í dvala í tvö ár frá 2010 til 2011. Helena hefur heldur ekki slegið slöku við síðan hún eignaðist metið og er nú bara einu stigi frá því að skora sitt þúsundasta stig.

Sjá má greinina og tölfræðina stærri með því að smella á myndina.umbrot/silja
336 stigum meira en allar hinar

Helena sker sig svo sannarlega úr þegar kemur að stigaskori með landsliðinu. Það eru tólf stelpur í hópnum fyrir Ungverjalandi og tvær af þeim eru að fara að spila sinn fyrsta leik. Hinar tíu hafa saman skorað samanlagt 663 stig fyrir íslenska landsliðið eða 336 stigum færra en Helena ein og sér.

Mikilvægi og sérstaða Helenu sést líka á því að hún er búin að vera stigahæst í 36 af síðustu 42 leikjum íslenska kvennalandsliðsins og þegar Sara Rún Hinriksdóttir náði að skora meira en hún í leik á móti Dönum í æfingamóti í Kaupmannahöfn í sumar þá endaði Sara Rún átján leikja einokun Helenu á því að vera stigahæsti leikmaður liðsins.

Spilað alla leiki í ellefu ár

Helena hefur ekki aðeins skorað 17 stig að meðaltali eða meira á síðustu átta landsliðsárum því hún hefur auk þess ekki misst úr landsleik í meira en ellefu ár. Leikurinn á móti Ungverjum í dag verður 55. landsleikurinn í röð hjá Helenu.

Helena Sverrisdóttir hefur ekki misst úr landsleik síðan sumarið 2004 þegar hún var upptekin með sextán ára landsliðinu á EM í Eistlandi á sama tíma og A-landsliðið tók þátt í Evrópumóti smáþjóða (Promotion cup) í Andorra.

Helena hefur leikið alla A-landsleiki í ellefu ár, þrjá mánuði og 21 dag. Ísland lék síðast án hennar í sigurleik á móti Lúxemborg í úrslitaleik í Evrópumóts smáþjóða 31. júlí 2004.

Helena skoraði ekki í fyrstu þremur landsleikjum sínum og hefur þar með ekki misst úr landsleik síðan hún skoraði sitt fyrsta landsliðsstig í sigri á Noregi á Norðurlandamótinu í Arvika 11. ágúst 2004.

Helena er 27 ára gömul og ætti að hafa næg tækifæri til að bæta við stigum. Tvö þúsund stiga múrinn er reyndar fjarlægur draumur en besta körfuboltakona Íslands ætti að eiga tækifæri til að bæta vel við metið sitt áður en hún klárar landsliðsferilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×