Innlent

Meinað að setja mál á dagskrá

Sveinn Arnarsson skrifar
Hafnarfjörður. Fjárhagsáætlun meirihlutans hefur verið gagnrýnd af íbúm.
Hafnarfjörður. Fjárhagsáætlun meirihlutans hefur verið gagnrýnd af íbúm. Fréttablaðið/Valli
Forsvarsmenn minnihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar saka meirihlutann um að hundsa beiðnir þeirra um að setja mál á dagskrá bæjarstjórnar. Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir þetta rangt.

Minnihlutinn fór fram á að ræddar yrðu tillögur í fjárhagsáætlun og áhrif þeirra á kjör eldri borgara og starfsemi leik- og grunnskóla. Þær umræður komust ekki á birta dagskrá fyrir bæjarstjórnarfund.

„Það kom beiðni frá minnihlutanum rétt fyrir klukkan fjögur þess efnis að þrjú mál yrðu sett á dagskrá bæjarstjórnar næstkomandi miðvikudag. Á þeim tímapunkti var búið að senda út dagskrá og því ekki hægt að verða við óskum minnihlutans,“ segir Rósa. „Samkvæmt okkar reglum þurfa beiðnir sem þessar að hafa komið fyrir klukkan 11 um morguninn, tveimur sólarhringum fyrir bæjarstjórnarfund, til að þær komist á dagskrá.“

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir umræður um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn litlar sem engar og vill setja umræður um hana á dagskrá. „Þrátt fyrir rétt kjörinna fulltrúa til að setja mál á dagskrá, hafa forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri ákveðið að virða ekki þann rétt. Tilgangurinn virðist ekki annar en að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu um tillögur þeirra sjálfra,“ segir Gunnar Axel.

Rósa telur hins vegar möguleika á að málin muni verða rædd þrátt fyrir að beiðni hafi borist of seint. „Ég vænti þess þá að þessi mál minnihlutans verði samt sem áður rædd næstkomandi miðvikudag og verði sett inn á dagskrá fundarins með afbrigðum,“ segir Rósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×