Innlent

Fangelsisdómur staðfestur vegna 45 þúsund barnaklámsmynda

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sumt af efninu talið vera „af grófasta tagi“, eins og dómurinn kemst að orði.
Sumt af efninu talið vera „af grófasta tagi“, eins og dómurinn kemst að orði. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest dóm yfir Jóni Sverri Bragasyni fyrir að hafa í vörslum sínum rúmlega 45 þúsund barnaklámsmyndir og 155 hreyfimyndir af sama toga.

Fyrir héraðsdómi hafði hann verið dæmdur í tveggja ára og átta mánaða fangelsi. Var hann einnig dæmdur fyrir að hafa í vörslum sínum óskráðan loftriffil.

Áður gripinn með barnaklám

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að hann braut skilorð með broti sínu vegna dóms sem hann hlaut fyrir samskonar brot áður.

Þá var sumt af efninu talið vera „af grófasta tagi“, eins og dómurinn kemst að orði.

Jón Sverrir áfrýjaði málinu til hæstaréttar; meðal annars vegna þess að deilt væri um hvernig barnaklámsefnið komst í tölvur og gagnabúnað hans.

Kannaðist ekki við efnið

Í skýrslutöku hjá lögreglu bar hann því við að aðrir hefðu aðgang að tölvunni hans og að hann hefði keypt notaða minnislykla í Kína, sem hefðu getað innihaldið barnaklámefnið þegar hann keypti þá.

Þá vildi hann einnig fá sérfróða meðdómsmenn til að fjalla um málið til að meta hvað leitt hefði verið í ljós með tölvurannsóknum hjá lögreglu.

Efnið fannst við komu hans til Íslands 1. ágúst á síðasta ári og við leit á dvalarstað hans hér á landi 19. sama mánuð. Efnið fannst á fjórum tölvum, þremur USB-lyklum og þremur hörðum diskum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×