Helga Birna Gunnarsdóttir, verðandi lyfjafræðingur, vann gæðamatið í umsjón Ingunnar Björnsdóttur, dósents við Óslóarháskóla. Í gæðamatinu kom í ljós að það voru villur í lyfjagagnagrunni, í svokölluðum DDD-gildum.
„5.919 norræn vörunúmer voru skoðuð og gæðamatið gaf til kynna að það væru villur í um það bil 30 prósent tilvika. Villurnar voru misalvarlegar. Sumar voru af faglegum toga, aðrar mun saklausari og tengdust innslætti eða námundun. En þó var ljóst að það vantaði töluvert upp á faglega umsjón með lyfjagagnagrunninum og nauðsynlegt að sinna slíku betur til að hægt sé að nota grunninn til rannsókna með öruggum hætti,“ segir Helga Birna um niðurstöður gæðamatsins.
Ingunn minnir á að rafræn gagnasöfn eins og íslenski lyfjagagnagrunnurinn séu í sífelldri þróun. Til þess að það sé hægt að treysta á hann sem heimild þurfi að vera hægt að reiða sig á gögnin. Það sé ekki raunin í dag.
„Misræmið í flokki tauga- og geðlyfja er áhyggjuefni því að í þeim flokki eru flestöll lyfin sem hægt er að misnota, þannig að þann flokk ætti Embætti landlæknis að leggja sérstaka áherslu á að hafa sem réttastan.“
Valgerður Rúnarsdóttir, sérfræðilæknir í fíknlækningum á Vogi, segir stofnunina hafa bent á auðvelt aðgengi lyfseðilsskyldra tauga- og geðlyfja árum saman. „Svartur markaður með þessi lyf er staðreynd, það er ánægjulegt ef það verður hægt að draga úr framboðinu,“ segir hún.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að læknar létu vita af lyfjaávísunum í þeirra nafni sem þeir vissu ekki um. Helst var um að ræða lyf í flokki tauga- og geðlyfja. Ólafur B. Einarsson hjá Embætti landlæknis sagðist binda vonir við að það væri hægt að minnka misnotkun lyfja með meira gagnsæi en nú geta læknar séð lyfjasögu sjúklinga sinna í rauntíma en þannig komst upp um ávísanirnar.
