Innlent

Neytendur látnir taka sökina í ræktun kannabisplantna

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Lögreglumenn leggja hald á kannabisplöntur í kannabisverksmiðju á Kjalarnesi árið 2009 þar sem voru um eitt þúsund plöntur. Nú eru ræktanir minni í sniðum,
Lögreglumenn leggja hald á kannabisplöntur í kannabisverksmiðju á Kjalarnesi árið 2009 þar sem voru um eitt þúsund plöntur. Nú eru ræktanir minni í sniðum, vísir/gva
„Við höfum miklar áhyggjur af neytendum, sér í lagi þegar við sjáum að það er verið að misnota neytendur. Þeir sem eru hærra settir nýta þá til að hjálpa til við framleiðsluna eða söluna,“ sagði Aldís Hilmarsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn sem fjallaði um kannabismarkaðinn á Íslandi út frá sjónarhorni lögreglu á fræðslumálþingi á vegum samtakanna Fræðsla og forvarnir. „Við leggjum ekki áherslu á neytendur, það er okkar markmið að stemma stigu við framleiðslunni og hafa þannig áhrif á framboðið.“

Gjaldeyrishöft og kannabis
Aldís Hilmarsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði sérstakt áhyggjuefni forvarnaraðila hversu auðvelt aðgengi börn og unglingar er að kannabisefnum.
Aldís fjallaði um þróun kannabismarkaðarins á Íslandi fyrir hrun og eftir hrun. Kannabisræktun fyrir hrun hafi einkennst af viðvaningslegri tilraunastarfsemi og ræktun í smáum stíl. Eftir hrun hafi margir hins vegar séð atvinnutækifæri í ræktun kannabisefna. „Hrunið hafði ekki bara áhrif á hinn vinnandi mann, það hafði líka áhrif á þá sem eru í þessum bransa. Þarna sáu menn mikil atvinnutækifæri. Það voru gjaldeyrishöft og mun erfiðara að fjármagna innflutning á harðari efnum,“ sagði Aldís þegar hún rakti ástæður þess að kannabisræktun eftir hrun varð stórfelldari en áður í íslensku samfélagi. „Þarna fóru líka að spretta upp sérverslanir með búnað, lampa, tjöld,“ sagði Aldís og að eftir hrun hefði komist upp um mjög stórar ræktanir, með allt að tvö hundruð plöntum.

Útreiknað eftir áhættu

Aldís sagði ræktanir smærri í dag, þær væru útreiknaðar eftir áhættu og ávinningi. „Verkaskipting er orðin mjög skýr, það eru þrír til fjórir saman um eina ræktun og búið að ákveða fyrirfram hver tekur á sig sökina ef þeir nást. Þarna erum við einmitt að sjá að það er verið að nota neytendur og þá sem eru í neyð til að taka á sig sökina.“

Aldís sagði aldursdreifinguna mikla, allt frá 17 ára til 71 árs. „Langflestir eru 25 til 35 ára en það vekur athygli að sakborningar verða sífellt yngri.“

Hinn dæmigerði ræktandi

Aldís greindi frá því hver hinn dæmigerði kannabisræktandi er samkvæmt greiningu lögreglunnar. Sá sem stendur í raun og veru fyrir ræktuninni.

„Þessi týpíski ræktandi er karlmaður, hann er 25-35 ára, atvinnulaus eða á bótum, jafnvel á hann eða er skráður fyrir einhverju ehf. eða nokkrum. Hann er ekki neytandi sjálfur, það er nánast regla. Það er það sem við höfum áhyggjur af. Þetta er atvinnumaður. Þessir hafa áberandi lífsstíl og eru með mikið reiðufé á milli handanna. Eru oft handlagnir eða hafa aðgang að rafvirkja eða smið.“

Börn fá heimsent kannabis

Aldís greindi frá áhrifaríku verkefni lögreglunnar þar sem gerð var tilraun til að kortleggja sölu vímuefna á samfélagsmiðlum.

„Ein úttekt sem við gerðum í febrúar sýndi gífurlegt framboð og aukinn sýnileika. Það er mjög auðvelt fyrir börn og unglinga að nálgast efni. Þetta er ný áskorun. Eftir þennan eina mánuð sáum við sjötíu síður þar sem verið var að selja fíkniefni. Í sumum hópum eru allt að 2.200 meðlimir. Við fundum 500 notendanöfn, þau geta verið fleiri eða færri. Við gátum greint 160 sölumenn,“ sagði Aldís og sýndi dæmi um hversu auðvelt aðgengi að kannabisefnum er til að mynda fyrir börn og unglinga. Þau geti sent sms í númer án þess að vera með inneign og fengið heimsendingu á kannabisefnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×