Innlent

Þjófur óð í vasa gesta í Áskirkju í miðri útför

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Séra Sigurður Jónsson prestur í Áskirkju segir þjófinn hafa verið glæsilegan pilt, vel til fara og biðlar til hans að skila þýfinu.
Séra Sigurður Jónsson prestur í Áskirkju segir þjófinn hafa verið glæsilegan pilt, vel til fara og biðlar til hans að skila þýfinu. vísir/hari
„Hann yrði auðvitað maður að meiri ef hann skilaði fengnum. Það er bréfalúga á kirkjunni ef hann vildi smeygja einhverju þar inn,“ segir séra Sigurður Jónsson, prestur í Áskirkju, og biðlar til þjófs að skila veski sem hann stal úr yfirhöfn kirkjugests í útför í síðustu viku.

Þjófurinn athafnaði sig í miðri útför í Áskirkju á miðvikudaginn. Kirkjuvörður kom að ungum manni sem þreifaði utan á yfirhöfnum gesta í fatahengi í anddyri kirkjunnar. Þegar hann spurði manninn hvað hann væri að gera, réðst hann að honum, sló hann í andlitið og hljóp út úr kirkjunni.

„Þetta var á miðvikudaginn var, þá var útför og nokkuð fjölmenn. Þannig var að kirkjuvörðurinn kemur að manni sem er að þreifa á yfirhöfnum, ávarpar hann og spyr hann hvort hann vanti eitthvað. Þá slær hann kirkjuvörðinn högg í andlitið og hleypur út. Það var farið á eftir honum, bæði kirkjuvörðurinn og útfararþjónar. En hann komst undan. Svo kom í ljós að maður saknaði veskis úr yfirhöfn sinni,“ segir séra Sigurður um atburðarásina.

Hann segir lögreglu hafa komið strax á staðinn og tekið skýrslu af þeim sem urðu vitni að þessu. Séra Sigurður segist halda að þjófar fylgist jafnvel með útfarartilkynningum. Aðferðin sé þekkt þótt í Áskirkju hafi menn ekki orðið fyrir barðinu á þjófum áður með þessum hætti. „Þetta er býsna langt gengið en maður hefur heyrt áður að þetta sé þekkt aðferð. Það er eins og menn fylgist þá með útfarartilkynningum.“

Honum segist brugðið. Piltinum er lýst sem glæsilegum ungum manni á þrítugsaldri. „Þetta var glæsilegur piltur á þrítugsaldri, vel til fara. Í fínni útivistarúlpu. Þetta er allt frekar ömurlegt.“

Séra Sigurður segir kirkjugesti þurfa að hafa varann á sér og geyma ekki mikil verðmæti í yfirhöfnum sínum. „Við verðum bara að læra af þessu og vera með okkar fólk í viðbragðsstöðu auk þess að biðja fólk að geyma ekki mikil verðmæti í yfirhöfnum sínum.“

Hann rifjar upp þjófnað fyrir um áratug í Áskirkju. „Þá var brotin rúða í bíl, þar lá í framsæti hlutur sem líktist fartölvu. Þjófurinn greip hlutinn og lét sig hverfa. Þetta reyndist hins vegar vera biblía með renndri kápu, hún hefur vonandi orðið honum til góðs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×