Innlent

Borga hönnun á umdeildri Álftaneslóð og íhuga að breyta í útivistarsvæði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Áratuga deilur um eignarhald og síðan skipulagsmál hafa staðið um sjávarlóðina Miðskóga 8 á Álftanesi.
Áratuga deilur um eignarhald og síðan skipulagsmál hafa staðið um sjávarlóðina Miðskóga 8 á Álftanesi. Vísir/Stefán
Garðabær hefur samið við fyrrverandi eigendur lóðarinnar Miðskóga 8 á Álftanesi um greiðslur fyrir hönnunar- og skipulagsvinnu vegna breytinga sem þáverandi bæjarstjórn Álftaness lét gera á lóðinni.

„Greiðslan er innt af hendi án nokkurrar viðurkenningar á bótaskyldu Garðabæjar vegna Sveitarfélagsins Álftaness,“ segir í samkomulaginu sem bæjarráð Garðabæjar samþykkti. Það gerir ráð fyrir að lóðareigendurnir fyrrverandi fái 2,5 milljónir króna.

Hatrammar deilur voru lengi um umrædda lóð. Ágreiningur var um eignarhald en um og upp úr miðjum síðasta áratug var fyrst og fremst tekist á um hvort Miðskógar 8 væri í raun byggingarlóð. Hún er við sjávarsíðuna framan við einbýlis­hús Kristjáns Sveinbjörnssonar, sem var forseti bæjarstjórnar Álftaness þegar deilan stóð hæst. Lóðinni var meðal annars breytt í leiksvæði í skipulagi bæjarins um tíma en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála ógilti síðar þá ákvörðun bæjarstjórnarinnar.

Miðskógar 8 er sjávarlóð. Fréttablaðið/Stefán
Í desember 2008 sagði Kristján af sér sem forseti bæjarstjórnar að kröfu félaga sinna eftir að hann var bendlaður við nafnlausan óhróður um lóðareigandann á spjallsvæði sveitarfélagsins.

Upp komst um Kristján með skoðun á upptökum úr eftirlitsmyndavélum við tölvuver Grand Hótels í Reykjavík. Þangað hafði lögregla rakið sendinguna inn á spjallsvæðið. Hann var dæmdur til greiðslu bóta og málskostnaðar í Héraðsdómi Reykjaness og óhróðurinn gerður ómerkur.

Miðskógar 8 hafa frá því í árslok 2013 verið í eigu ÍSB fasteigna sem er dótturfélag Íslandsbanka. Á árinu 2012 var lóðin auglýst til sölu á 15 milljónir króna og sögð vera „1.469,6 fermetra sjávarlóð undir einbýlishús á frábærum stað“.

Að sögn Guðjóns E. Friðrikssonar, bæjarritara í Garðabæ, er enn byggingarréttur á Miðskógum 8. Hins vegar hafi óformlegt samband verið haft við núverandi eiganda með kaup bæjarins á lóðinni í huga, hugsanlega með því að bjóða aðra lóð í skiptum.

„Þá höfum við það bara í hendi okkar hvað verður úr með hana – hvort það verði reynt að laga hana betur að landinu eða jafnvel gert þarna opið svæði því það er álitamál hversu heppilegt svæðið er til byggingar, það er að segja hvort landið sé einfaldlega nægjanlegt. Og svo eru þessar hremmingar sem hafa orðið þarna í nágrenninu,“ segir bæjarritarinn.

Hús fremst á þessari tölvugerðu mynd, framan við hús fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Álftaness, varð ekki að veruleika. Mynd/EON arkitektar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×