Innlent

Perla komin á flot

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
mynd/gísli
Sanddæluskipið Perla, sem legið hefur á botni Reykjavíkurhafnar í um hálfan mánuð, er komið aftur á flot. Hafist var handa við að dæla úr skipinu um hádegisbil í dag, en aðgerðir gengu hægar en gert var ráð fyrir, að sögn Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna.

„Framhald málsins er nú í höndum rannsóknaraðila (lögreglu og rannsóknarnefnda sjóslysa) og tryggingafélags Björgunar hvernig haldið verði á málum,” segir Gísli í tilkynningu sem hann sendi frá sér á tíunda tímanum.

Undirbúningur við að koma Perlu á flot hefur staðið yfir síðustu daga. Dæling úr henni gekk vel þegar leið á daginn, en vandasamt reyndist að halda stöðugleika skipsins. Gísli segir undirbúning þeirra sem stýrðu aðgerðinni hafa verið vandaðan og að nú sé verið að ljúka aðgerðum við Ægisgarð.

Þá segir Gísli enga olíu hafa lekið frá skipinu, en yfir tólf þúsund lítrar af skipaolíu eru um borð og átta hundruð lítrar af glussa og smurolíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×