Innlent

Tiltekt frekar en ný mynt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnmálamenn tókust á um efnahagsmál í Hörpu í gær.
Stjórnmálamenn tókust á um efnahagsmál í Hörpu í gær. vísir/vilhelm
„Ég er þeirrar skoðunar, og við í Samfylkingunni, að þessi ríkisstjórn sé að loka augunum allt of skarpt gagnvart þeim kostnaði sem fylgir því að koma þaki yfir höfuðið á Íslandi,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, á fundi Samtaka atvinnulífsins um fjármál ríkisins í Hörpu í gær.

Samkvæmt nýbirtri skoðanakönnun Fréttablaðsins vilja 53 prósent fá nýja mynt.

Búsetu á „örmyntsvæði“ segir Katrín ástæðu þess að hér sé dýrara að koma sér þaki yfir höfuðið en erlendis. „Og ef menn eru ekki tilbúnir til þess að fara þá leið að taka upp aðra mynt með því að ganga í myntbandalag, viljið þið þá bara segja okkur hvaða plan annað þið ætlið að bjóða okkur upp á?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði að leiðin til að byggja upp samfélag, sem væri jafnstætt samfélögunum á Norðurlöndunum, væri meiri agi í ríkisfjármálum. „Við getum vel lifað með krónunni, ef það er agi í ríkisfjármálum. Eigum við að taka upp evru með vöxtunum í Kýpur eða Svartfjallalandi?“ spurði hann.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að fyrst og fremst þyrfti að taka til í efnahagsmálum heima fyrir. Þegar það væri búið mætti ræða upptöku nýrrar myntar. Forsenda þess að hægt væri að taka upp nýja mynt væri hvort eð er sú að tekið yrði til heima fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×