Innlent

Umtalað myndband af Quiznos í Grafarvogi: "Hún tekur þetta afskaplega nærri sér“

Birgir Olgeirsson skrifar
Quiznos, þó ekki í Grafarvogi.
Quiznos, þó ekki í Grafarvogi. Vísir/Stefán
Eitt umtalaðast myndbandið á Íslandi í dag var tekið upp á skyndibitastaðnum Quiznos á Olísstöðinni í Grafarvogi í gær. Þar sést starfsmaður Quiznos útbúa svokallaðan samlokubát með hníf sem hafði legið á gólfinu.

Myndbandið hefur fengið tæp 25 þúsund áhorf eftir að það var birt á Facebook í gærkvöldi. Það er ekki lengur aðgengilegt öllum á samfélagsmiðlinum. Viðskiptavinurinn sem tók myndbandið upp sagðist hafa gert athugasemd við þessi vinnubrögð og þá hafi starfsmaðurinn útbúið nýjan bát þar sem hann hafði dregið fram hreinan hníf og skipt um hanska.

Í athugasemdum fyrir neðan myndbandið voru nokkrir sem hrósuðu viðskiptavininum fyrir að birta myndbandið en aðrir eru á því að þeir hefðu látið athugasemdina nægja og myndbandið muni ekki gera annað en að láta starfsmanninum líða illa. Aðrir sögðu þó birtingu myndbandsins mikilvæga til að tryggja að svona komi ekki fyrir aftur.

Ein þeirra sem tjáði sig í athugasemd við myndbandið er Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir sem er framkvæmdastjóri smásölusviðs Olís. Hún þakkaði viðskiptavininum kærlega fyrir ábendinguna og sagði ljóst að þetta væru mistök hjá starfsmanninum sem séu ekki til eftirbreytni og ekki samkvæmt gæðastöðlum fyrirtækisins.

„Við munum að sjálfsögðu fara yfir þetta atvik með okkar starfsfólki, svo að vinnubrögð sem þessi endurtaki sig ekki,“ skrifaði Sigríður Hrefna sem segist í samtali við Vísi hafa rætt við starfsmanninn.

„Ég var með henni bara núna í hádeginu þegar hún mætti á vaktina. Þarna áttu sér stað mannleg mistök og ljóst að það hefur ekki verið unnið eftir þeim gæðaviðmiðum sem við höfum unnið eftir,“ segir Sigríður Hrefna. Hún segir viðkomandi starfsmann halda starfinu en hafi tekið þessu öllu afar nærri sér.

„Við höfum tekið vel utan um hana. Hún tekur þetta afskaplega nærri sér og hefur átt mjög erfitt því fyrir einstakling að fá svona myndbirtingu er náttúrlega all svakalegt. Eins og gefur að skilja er þetta ungur starfsmaður hjá okkur og átti reglulega erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×