Innlent

Öldruðum boðið í hressandi hjólatúr

Erla Björk Gunnarsdóttir skrifar
Sesselja og móðir hennar, Gréta Finnbogadóttir, fóru í jómfrúarferðina í fyrradag. Ferðin vakti mikla gleði, hjá þeim sjálfum og öðrum vegfarendum.
Sesselja og móðir hennar, Gréta Finnbogadóttir, fóru í jómfrúarferðina í fyrradag. Ferðin vakti mikla gleði, hjá þeim sjálfum og öðrum vegfarendum. Mynd/Edda
„Svona fáum við tækifæri til byggja brú inn í samfélagið og gera lífið betra,“ segir Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni, sem hefur flutt inn þrjú hjól frá Christiania­ bikes. Hjólin eru ætluð til hjólatúra með öldruðum sem búa á hjúkrunarheimilum.

Hugmyndin kemur frá Danmörku. Þar var maður sem tók upp á því að bjóða eldra fólki í hjólatúra. Túrarnir vöktu svo mikla lukku að Kaupmannahafnarborg fjárfesti í hjólum til að hafa á hjúkrunarheimilum. Nú tæpum þremur árum síðar eru þrjú hundruð hjúkrunarheimili í Danmörku með hjól og sjálfboðaliða sem fara með heimilisfólk í hjólaferðir.

„Þannig að við ákváðum að safna fyrir hjólum og þau komu til landsins í fyrradag,“ segir Sesselja glöð í bragði. Hjúkrunarheimilin Grund og Sóltún fá sitt hjólið hvort og svo mun eitt hjól flakka á milli hjúkrunarheimilanna í Kópavogi.

Fyrsta verk Sesselju var að fara á hjúkrunarheimilið Roðasali og bjóða móður sinni, 86 ára, í hjólatúr. „Þegar ég bauð henni út að hjóla stukku nokkrar konur á fætur og sögðust verða að sjá það. Það er ekki á hverjum degi sem ég sé konurnar verða svona forvitnar. Ég efast því um að það muni skorta eftirspurn.“

Sesselja er verkefnisstjóri í verkefninu en á hverju hjúkrunarheimili verður hjólastjóri sem sér um bókanir sjálfboðaliða og heimilismanna.

„Það geta allir verið með. Það er rafmagn í hjólunum sem hjálpar manni upp brekkur og það er gott jafnvægi á hjólinu. Svo hjólar maður bara rólega, svo það sé hægt að spjalla í leiðinni. Þetta er mjög gefandi starf og yndislegt að sjá hvað það gleður eldra fólkið að komast út og fá smá vind í kinnarnar.“

Sesselja segir skemmtilegt að sjá viðbrögð vegfarenda. „Það voru allir svo glaðir þegar þeir sáu okkur mömmu hjóla um. Maður sá fólk lyftast upp í bílunum af hamingju. Og mamma var líka svo ánægð. Þetta var frískandi fyrir okkur báðar og samverustundin dýrmæt.“

Sesselja ætlar að setja söfnun af stað og panta fimm hjól til viðbótar sem fyrst. Hvert hjól kostar átta hundruð þúsund krónur og því vonar hún að sveitarfélög og stærri samtök gangi til liðs við söfnunina. „Okkur langar að hafa hjól á hverju hjúkrunarheimili á Íslandi. Það er markmiðið. Svo eru fleiri hópar sem hafa áhuga á hjólunum, til dæmis foreldrar fatlaðra barna.“

Hægt er að skrá sig sem sjálfboðaliða og styrkja söfnun með því að hafa samband á hjolafaerni@hjola­faerni.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×