Innlent

Telur litlar líkur á umhverfisslysi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tilraunir til að koma Perlunni á flot hafa misheppnast.
Tilraunir til að koma Perlunni á flot hafa misheppnast. Fréttablaðið/ernir
„Við bíðum eftir að skipið komi upp,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, spurður um Perluna sem sökk í Reykjavíkurhöfn á mánudag.

Vont veður í gær hamlaði því að hægt væri að koma skipinu á flot. Tilraunir til hins sama á miðvikudaginn misheppnuðust þegar rúður í brú skipsins brotnuðu. Búnaður sem á að losa björgunarbáta sleppti ekki bátnum í skipinu. Jón Arilíus segir ástæðuna líklegast vera þá að skipið hafi ekki verið á nægjanlega miklu dýpi. „Það er líklegasta skýringin en við eigum eftir að prófa þennan búnað.“

Komið hefur fram að 12 þúsund lítrar af skipaolíu voru í skipinu og umtalsvert magn af glussa líka. Gísli Gíslason hafnarstjóri segir að gripið hafi verið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að olían leki út. Meðal annars hafi öllum tönkum á skipinu verið lokað, búið sé að koma fyrir mengunarvarnargirðingu umhverfis skipið og skipið sé vaktað. „Við erum að fylgjast með þannig að í sjálfu sér er minnsta áhættan núna,“ segir Gísli. Ekki hefur verið hugað að því að dæla olíunni úr skipinu.

Þá telur Gísli litlar líkur á því að skipið hamli skipaumferð þar sem það er í dag. „Nei, þetta er á þeim tíma sem umferð er tiltölulega róleg. Það er ekki stóra málið núna,“ segir Gísli.

Hjá Umhverfisstofnun fengust þær upplýsingar að fylgst væri með málinu. Viðbrögðin væru lögum samkvæmt á ábyrgð hafnar­stjóra, en Umhverfisstofnun geti veitt aðstoð ef óskað verður eftir henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×