Innlent

Milljónatjón á Hvalfjarðagöngum: Trjábolir spýttust upp í loftið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Farmur bílsins var of hár og rakst í járnbitann.
Farmur bílsins var of hár og rakst í járnbitann. Skjáskot
Ökumaður vörubíls með farm af trjábolum olli milljóna tjóni á Hvalfjarðagöngum sl. miðvikudaginn. Var farmurinn hærri en löglegt er og rakst hann upp í öryggisslá við annan gangamunann. Mildi þykir að ekki hafi orðið slys á fólki en eignatjón í göngunum er stórfellt.

Atvikið átti sér stað um sjö að kvöldi til og má sjá meðfylgjandi myndbandi. Rakst farmurinn í stálbita yfir syðri gangamunanum. Nokkrir trjábolir rákust upp í loft og hrundu síðan niður á akbrautina. Umferð var mikil í báðar áttir þegar atvikið átti sér stað og minnst tíu trjábolir spýttust upp í loft og skullu síðan niður á malbikið fyrir aftan flutningabílinn og til hliðar við hann.

Þetta kemur fram í frétt á vef Spalar. Marinó Tryggvason, öryggisfulltrúi Spalar segir að atvikið sé eitt það alvarlegasta sem hann hefur séð upptöku af í eftirlitskerfi Hvalfjarðaganga.

Lögregla var kvödd á vettvang og skýrsla tekin af ökumanni. Eignatjón í göngunum er stórfellt og verður í milljónum talið. Trjábolirnir eyðilögðu meðal annars leiðslur og ljós í lofti, myndavél og kapalstiga.

Var flutningabílinn á norðurleið með trjáboli úr nytjaskógum á Suðurlandi á leiðinni að járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Bolirnir eru kurlaðir þar og kurlið notað til brennslu í ofnum verksmiðjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×