Innlent

Loka leikskóla til að lækka rekstrarkostnað

Höskuldur Kári Schram skrifar
Með því loka leikskólanum Brekkuhvammi við Hlíðarbraut í Hafnarfirði má lækka rekstrarkostnað bæjarins um 45 milljónir króna segir formaður bæjarráðs.

Til stendur að loka leikskólanum Brekkuhvammi í Hafnarfirði næsta vor. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær að mikil óánægja er meðal foreldra barna í skólanum og hafa nú þegar 500 manns skrifað undir áskorun til bæjaryfirvalda um að falla frá þessari ákvörðun.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segist skilja afstöðu foreldra. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins sé hins vegar erfið og við því þurfi að bregðast.

„Ef ekkert verður gert þá stefnir í tólf til þrettán hundruð milljón króna halla á rekstri bæjarsjóðs á næsta ári. Þannig að það var augljóst að það þurfti að fara í alla þætti rekstrarins og þá kom fram þessi tillaga að þessi rekstrareining væri það lítil og óhagkvæm að það mætti gera hlutina með öðrum hætti,“ segir Rósa.

Hún segir að með þessu megi lækka rekstrarkostnað um 45 milljónir króna. Hinn kosturinn hafi verið að hækka leikskólagjöld um allt að 11 prósent.

„Börnin sem eru þarna núna og ættu að halda áfram næsta haust þau fá pláss í nærliggjandi leikskólum. Annar skólinn er í 450 metra fjarlægð frá þessari starfsstöð og hinn í 850 metra fjarlægð,“ segir Rósa.


Tengdar fréttir

Hafnfirskir foreldrar æfir vegna lokunar leikskólans Kató

Til stendur að loka elsta leikskóla Hafnarfjarðarbæjar næsta vor. Foreldrar eru æfir út í bæjaryfirvöld og eru byrjaðir að safna undirskriftum í mótmælaskyni. Móðir barns í skólanum segir að slík skerðing á grunnþjónustu sé ótæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×