Innlent

Löggurnar tístu í alla nótt: Sjósund, LSD og piparúði

Bjarki Ármannsson skrifar
Nóttin var ansi viðburðarík hjá lögregluembættum höfuðborgarinnar og Norðurlands eystra.
Nóttin var ansi viðburðarík hjá lögregluembættum höfuðborgarinnar og Norðurlands eystra. Vísir
Lögregla á Norðurlandi eystra handtók seint í gærkvöldi eftirlýstan mann í heimahúsi á Akureyri. Að sögn lögreglu réðst maðurinn á lögregluþjóna með hnífi og þurfti að yfirbuga hann með piparúða.

Þetta er meðal þess sem greint er frá á nýrri Twitter-síðu embættisins, en lögreglan á Norðurlandi eystra tók þátt í svokölluðu Twitter-maraþoni í gærkvöldi og í nótt þar sem öllum verkefnum lögreglunnar var deilt með almenningi á samfélagsmiðlinum.

Samkvæmt færslum lögreglunnar um hinn eftirlýsta mann réðst hann að lögregluþjónum er þeir hugðust handtaka hann. Hann var fluttur á lögreglustöð og vistaður þar eftir að það tókst að yfirbuga hann með piparúða. Enginn slasaðist við handtökuna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók einnig þátt í maraþoninu og er hægt að lesa um verkefni næturinnar á Twitter-síðu hennar. Meðal annars er greint frá því þar að lögregla og sjúkralið hafi verið kölluð út vegna einstaklings sem var smeykur eftir að hafa tekið inn fíkniefni í töfluformi með hakakrossi á en lögregla varaði sérstaklega við öflugri tegund LSD sem merkt er með hakakrossi í tilkynningu í gær. ​

Þá kom leigubílsstjóri á lögreglustöð um klukkan fjögur í nótt með erlendan ferðamann, karlmann á fertugsaldri, sem hafði verið í sjónum við Miðbakka. Að sögn lögreglu fékk maðurinn að gista í fangaklefa þangað til föt hans myndu þorna og hann ná áttum, en hann gat ekki sagt hvar hann væri til húsa eða gefið útskýringar á athæfi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×