Innlent

Lestu reynslusögur frá Geðhjálp: Skora á heilbrigðisráðherra að efla geðsvið Landspítalans sem fyrst

Bjarki Ármannsson skrifar
Geðsvið Landspítalans.
Geðsvið Landspítalans. Vísir/Vilhelm
Landssamtökin Geðhjálp skora á Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra að gera geðsviði Landsspítalans sem fyrst kleift að taka við sívaxandi hópi notenda sviðsins. Samtökin segja að þeim hafi upp á síðkastið borist fjölmargar ábendingar um að geðsviðið vísi alvarlega veiku fólki frá bráðageðdeild eða útskrifi sjúklinga alltof fljótt af legudeildum.

Þetta segir í opnu bréfi Geðhjálpar til ráðherra. Með bréfinu fylgja nokkrar nafnlausar reynslusögur fólks sem hefur glímt við geðræn veikindi og segja farir sínar af þjónustu og móttöku á Landsspítalanum ekki sléttar. Þær má lesa í viðhenginu hér neðst í fréttinni.

Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, og Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, kvitta undir eina slíka sögu sem fjallar um ónefndan fyrrverandi starfsmann Geðhjálpar sem svipti sig lífi í júní síðastliðnum. Hann á að hafa yfirgefið bráðamóttökuna í Fossvogi tveimur dögum áður en hann svipti sig lífi eftir að hafa komið þangað fyrr um daginn í fylgd Hrannars og Önnu og sagt læknum að hann vildi deyja og hefði tekið inn talsvert magn lyfja.

„Í okkar huga er eitthvað verulega rangt og öfugsnúið þegar manneskja viti sínu fjær af ótta við að vinna sjálfri sér mein kemur og biður um hjálp og er dáin tveimur dögum seinna án þess að hafa fengið hana,“ segir í frásögn Hrannars og Önnu, sem lesa má hér að neðan.

Rúmum á geðsviði Landsspítalans hefur fækkað úr 240 í 118 á síðastliðnum fimmtán árum, að því er segir í opnu bréfi Geðhjálpar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×