Körfubolti

Stólarnir vildu fá Sverri í Skagafjörðinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson gerði frábæra hluti með Grindavík.
Sverrir Þór Sverrisson gerði frábæra hluti með Grindavík. vísir/ernir
Tindastóll, silfurlið síðustu leiktíðar í Dominos-deild karla í körfubolta, er enn í þjálfaraleit eftir að félagið rak Finnann Pieti Poikola frá störfum eftir aðeins fjóra leiki.

Kári Marísson, sem var aðstoðarþjálfari Spánverjans Israels Martins á síaðsta tímabili, hefur stýrt liðinu í síðustu tveimur leikjum í deild og bikar heldur áfram um stýrið á meðan leitað er að eftirmanni Finnans.

Sjá einnig:Stólarnir mega ekki tjá sig um brottrekstur Poikola

Tindastóll reyndi að fá Sverri Þór Sverrisson, fyrrverandi þjálfara Grindavíkur, til starfa en hann gaf Skagfirðingum afsvar.

„Þeir heyrðu í mér en þetta gengur bara ekki upp. Ég get ekki tekið við liðinu vegna vinnu og fjölskyldunnar,“ segir Sverrir Þór sem gerði Grindavík að Íslandsmeisturum tvö ár í röð 2012 og 2013.

„Þetta er spennandi starf þar sem þetta er hörkulið og það hefur verið mikið að gerast í körfunni hjá Tindastóli undanfarið. Ég hef bara ekki tíma í þetta og fór því ekki einu sinni í viðræður,“ segir Sverrir Þór.

Sjá einnig:Pieti Poikola gagnrýnir „varnarkúltur“ Domino´s deildarinnar

Sverrir starfar sem málari og hefur því nóg að gera, en eftir að hann sagði upp störfum hjá Grindavík hefur hann ekkert komið nálægt körfubolta.

„Ég er alveg í fríi. Stefnan var að kúpla sig alveg út úr þessu í eitt ár. Nú einbeitir maður sér bara að málningunni í bili,“ segir Sverrir Þór Sverrisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×