Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Höttur 99-69 | Keflavík ósigrað á toppinn

Styrmir Gauti Fjeldsted í Sláturhúsinu skrifar
Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Keflavíkur, skoraði átta stig í kvöld.
Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Keflavíkur, skoraði átta stig í kvöld. vísir/stefán
Keflavík er eina liðið í Domino's-deild karla sem er enn með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir en liðið vann öruggan sigur á nýliðum Hattar í kvöld, 99-69.

Keflvíkingar gerðu út um leikinn með frábærum öðrum leikhluta sem þeir unnu, 36-17. Heimamenn leiddu með 21 stigs mun í hálfleik, 52-31, og var eftirleikurinn auðveldur.

Keflvíkingar spiluðu svæðisvörn nánast allan leikinn ásamt því að pressa eftir skoraða körfu en Hattarmenn réðu illa við það í fyrri hálfleik og töpuðu boltanum alls 13 sinnum.

Valur Orri Valsson skoraði átján stig fyrir Keflavík og Magnús Már Traustason sextán. Hjá Hetti var Tobin Carberry stigahæstur með 26 stig en hann tók átta fráköst þar að auki.

Fyrirfram mátti búast við auðveldum leik hjá Keflvíkingum sem voru enn taplausir þegar kom að leiknum í kvöld. Höttur er hins vegar í hinum endanum á töflunni og ekki enn búinn að vinna leik í Domino's-deildinni.

Leikurinn hófst frekar rólega en Keflvíkingar, sem spiluðu svæðisvörn og pressuðu allan völlinn, reyndu að keyra upp hraðann, þó með misjöfnum árangri. Hattarmenn áttu ekki í teljandi vandræðum með pressuna en náðu ekki að nýta sér það. Lítið var skorað í fyrsta leikhluta og höfðu menn hægt um sig. Guðmundur Jónsson, leikmaður Keflvíkinga, endaði fyrsta leikhluta á því að setja niður þrist um leið og leiktíminn rann út.

Annar leikhluti var algjörlega eign Keflvíkinga og áttu Hattarmenn í stökustu vandræðum að með pressuvörn þeirra. Ásamt því að pressa spiluðu Keflvíkingar svæðisvörn allan fyrri hálfleik. Þetta skilaði góðu forskoti inn í hálfleik fyrir Keflavík þar sem staðan var 52-31 og Hattarmenn búnir að tapa boltanum 13 sinnum í fyrri hálfleik. Þarna var lagður grunnurinn að sigrinum.

Hattarmenn settu niður nokkra þrista í upphafi síðari hálfleiks en Keflvíkingar svöruðu jafn harðan og héldu þægilegu forskoti. Hattarmenn reyndu að hleypa leiknum upp með því að pressa en það gekk ekki hjá þeim. Keflvíkingar léku á lagið og sigldu þægilegum sigri heim. Úrslitin þýða að Keflavík er ein á toppnum, taplaus eftir fjórar umferðir. Höttur er hins vegar enn á botninum án sigurs.

Óhætt er að segja að allir leikmenn Keflavíkur hafi átt góðan dag en sjö leikmenn skoruðu 8 stig eða meira. Ef ætti að taka einhvern út úr sterkri liðsheil Keflvíkinga þá var Valur Orri Valsson bestur hjá þeim en hann skoraði 18 stig og stjórnaði leik sinna manna vel. Aðrir leikmenn eins og Magnús Már Traustason, Ágúst Orrason, Earl Brown jr. og Ragnar Gerald Albertsson stóðu sig mjög vel í kvöld.

Hjá Hetti var Tobin Carberry með mikla yfirburði en hann skoraði 26 stig og tók 8 fráköst. Mirko Stefán var með 13 stig og 8 fráköst en aðrir voru með mikið minna. Höttur þarf að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum en þessum ef ekki illa á að fara í vetur.

Keflavík-Höttur 99-69 (18-14, 36-17, 17-21, 28-17)

Keflavík: Valur Orri Valsson 18/4 fráköst, Magnús Már Traustason 16, Ágúst Orrason 14, Earl Brown Jr. 11/10 fráköst/5 varin skot, Ragnar Gerald Albertsson 10/5 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Reggie Dupree 8/4 fráköst, Andri Daníelsson 6, Guðmundur Jónsson 4, Davíð Páll Hermannsson 4.

Höttur: Tobin Carberry 26/8 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 13/8 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 8, Hallmar Hallsson 6, Hreinn Gunnar Birgisson 4, Helgi Björn Einarsson 4, Sigmar Hákonarson 4, Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 2, Gísli Þórarinn Hallsson 2.

Valur Orri: Tók á því og hætti þessu væli

Valur Orri Valsson var ánægður eftir leikinn en hann átti enn einn stór leikinn á móti Hetti.

„Við mættum mjög grimmir til leiks því við vissum að þeir ætluðu að berjast,“ sagði Valur Orri við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„Við spiluðum svæðisvörn í leiknum en við erum litlir og þeir hafa verið að taka fullt af fráköstum í vetur. Við reyndum að pressa á bakverðina hjá þeim. Þeir eru ekki með mikla reynslu á að spila í úrvalsdeild. Það gekk vel, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði hann.

 

Valur Orri hefur byrjað tímabilið mjög vel en hann segist hafa tekið sig í gegn yfir sumarmánuðina.

„Ég tók bara á því í sumar. Málið er að hætta þessu væli, rífa sig í gang og vinna upp sjálfstraust.“

Sigurður: Ekki að hugsa um toppsætið

„Þetta er aldrei auðvelt en við spiluðum mjög vel, sérstaklega í vörninni í fyrri hálfleik og vorum með góða forystu inn í seinni hálfleik. Spilamennska okkar var ekkert sérstök í seinni hálfleik en það var nóg, þannig að ég er mjög sáttur,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, eftir sigurinn á Hetti í kvöld.

Keflavík er eitt á toppi deildarinnar með fullt hús stiga en Sigurður segir að hann sé lítið að velta því fyrir sér.

„Mótið er nýbyrjað og þetta gengur ágætlega en við erum ekki orðnir frábærir. Við vorum að fá framlag hjá mörgum í kvöld, það er skemmtilegt og þá erum við jafnvel betri. Við förum í hörkuleik í Stykkishólminn í næstu viku og þeir eru með hörkulið þannig að við verðum að gera okkur klára.“

 

Viðar Örn: Við getum unnið KR

„Þetta er erfitt fyrir okkur  en við verðum að halda áfram að vinna í okkar leik. Við vorum langt frá því að vera nógu góðir hér í kvöld,“ sagði Viðar sem var óánægður með að hans menn hafi leyft Keflvíkingum að leika sér á löngum köflum í leiknum.

„Við vissum að þeir myndu pressa og fara í svæðisvörn en við vorum ekki að klára opnu skotin okkar ekki nógu vel. Varnarleikurinn okkar var heldur ekki að heilla mig í kvöld en það er ljóst að við þurfum að fá framlag frá meira en einum manni. Liðið þarf að virka betur.“

Nýliðarnir eiga næst leik gegn Íslandsmeisturum KR en Viðar Örn telur að þrátt fyrir að liðið sé stigalaust á botni deildarinnar eigi það erindi í KR-inga.

„Við erum í basli en við vinnum okkur í gegnum það. Allir leikir eru erfiðir fyrir okkur en ég hef trú á því að við getum unnið KR í næsta leik. Við þurfum að spila margfalt betur en hér í kvöld og vonast til að þeir eigi erfitt uppdráttar.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×