Lífið

Framtíðin er hér -21.10.15

Guðrún Ansnes skrifar
Í dag, 21. október 2015, er dagurinn sem Marty McFly skall á framtíðinni klukkan 16.29. Aðdáendur Back to the Future-þríleiksins um allan heim hafa beðið lengi eftir deginum, eða síðan 1989.Vísir tók snúning á nokkrum dyggum aðdáendum þríleiksins, sem verða misuppteknir í dag við að sinna áhugamálinu.Flestir eiga það sameiginlegt að ætla sér að horfa á myndirnar í dag og eru þeir býsna svekktir yfir að ekki hafi fleiri spádómar handritshöfunda um 2015 ræst, eins og uppfinning pitsastækkarans.

Óli Dóri hefur skellt húfunni á kollinn og tjaldað öllu til í Bíó Paradís, sem tekur að sér að hýsa heilmikinn mannfögnuð í dag.
Fagnar á slaginu 16.29

„Þetta er hugmynd sem ég fékk fyrir ári, en ég er mjög mikill aðdáandi myndanna. Ég og fleiri höfum beðið mjög lengi eftir að dagsetningin kæmi loks,“ segir Ólafur Halldór Ólafsson, eða Óli Dóri, rekstrarstjóri hjá Bíói Paradís sem stendur fyrir fögnuði þar á bæ í dag. Hefjast hátíðarhöld á slaginu 16.29, en það var þá sem Marty McFly lenti í framtíðinni.Sjálfur er hann mikill aðdáandi og því spennandi dagur fram undan í vinnunni. „Ég veit að hingað munu margir koma í búningum, ég geri ráð fyrir að ekki verði þverfótað fyrir Marty-um,“ segir Óli Dóri og skellir upp úr. Segir Óli að bíóinu verði breytt í anda framtíðarsýnar höfunda myndanna, og verði meðal annars boðið upp á rétti innblásna af matseðli Café 80’s og hægt verði að spila sömu tölvuleiki og þeir gera í myndinni.Óli Dóri segir skemmtanagildi myndanna svo margslungið, en það sé sérlega gaman að horfa á það sem höfundarnir spáðu um. „Þeir sáu 3D-tæknina fyrir og nítjándu Jaws-myndina, sem þó varð ekki að veruleika. Þeir sáu ekki netið fyrir kannski, en sáu samt að dagblöðin myndu að einhverju leyti taka á sig aðra mynd, og þessir hlutir eru merkilegir út af fyrir sig.“

Sævar er mikill aðdáandi myndanna, en er afar ánægður með að fljúgandi bílar séu ekki raunveruleiki okkar árið 2015.
Útskýrir tímaflakk í tilefni dagsins

Ég ætla að útskýra tímaflakk frá aðeins raunsærra sjónarhorni en gert er í myndunum, svo sem hvernig náttúran leyfir okkur að flakka og það geri ég með erindi í Bíó Paradís í dag,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri stjörnufræðivefjarins. „Með því að nota afstæðiskenningu Einsteins, og í grófum dráttum virkar það þannig að eftir því sem þú ferð hraðar, og ferðast eins nálægt ljóshraða og hægt er þá líður tíminn hægar á jörðinni. Marty fer þrjátíu ár fram í tímann, og til að hann gæti það, þá þyrfti hann að fara á ljóshraða í eitt ár,“ útskýrir Sævar og nær útilokar ferðalög til fortíðar. „Það er mikið meira vesen.“Segist Sævar dýrka myndirnar, og horfi á þær allar að minnsta kosti einu sinni á ári. „Ég kann þær nánast utan að.“ Ætlar hann sannarlega að halda uppá daginn, og fyrir utan að halda erindið, þá muni hann snú buxunum öfugt, líkt og gert var ráð fyrir að menn gerðu þennan dag árið 2015 í myndinni. Aðspurður um hvað honum þyki verst að ekki hafi ræst samkvæmt spám höfunda myndanna minnist hann á pizzastækkarann líkt og Björn, en segist nokk sama um hoverbrettin. „En ég er ofboðslega ánægður með að spáin um fljúgandi bíla rættist ekki, það hefði orðið stórhættulegt og óheppilegt fyrir mig sem hef gaman af að skoða himingeima.“

Benn tekur þetta alla leið og verður vant við látinn í dag að undirbúa Back to the Future-samkomu, þar sem vinirnir ætla að njóta til hins ítrasta.
Doc hefði orðið mjög vonsvikinn

Við ætlum að vera sex, vinirnir, og byrja snemma seinni partinn að horfa svo við náum öllum myndunum. Það kom ekki annað til greina hjá mér en að taka mér frí frá vinnunni, en ég ætla að reyna að útbúa nokkra þeirra rétta sem voru á boðstólum á Café 80’s í mynd númer tvö,“ segir Ben Green, eldheitur aðdáandi myndanna og starfsmaður CCP á Íslandi.„Það hefur verið lengi á dagskránni að gera eitthvað svona, en þó sagt í gríni oft. Það var ekki fyrr en í síðustu viku sem við fórum að átta okkur á að þessi dagsetning væri í alvörunni bara að skella á. Þá fórum við að plana þetta af alvöru,“ útskýrir Ben.Hann hefur verið aðdáandi frá blautu barnsbeini. „Mamma og pabbi tóku þetta upp fyrir okkur bræðurna úr sjónvarpinu og við horfðum endalaust á þessar VHS-upptökur. Ég held að þarna hafi ást mín á vísindaskáldskap kviknað,“ útskýrir Ben.Segir hann stærstu vonbrigði ársins 2015 sennilega vera þau að ekki séu hér fljúgandi bílar og svifbrettin hvergi sjáanleg. „Þó held ég að Doc hefði orðið ansi vonsvikinn með okkur, að nota enn þá bensín á bílana okkar en ekki rusl eins og hann hafði undirbúið,“ bendir Ben á og skýtur að:„Jú, ætli ég sé ekki líka frekar vonsvikinn með að sjálfreimandi skór séu ekki í gangi árið 2015.“

Björn gerir ráð fyrir að vera í vinnu þegar klukkan slær 16.29, en hyggst horfa á eina myndanna í dag í tilefni dagsins.mynd/aðsend
Svekkjandi að pizzastækkarinn sé ekki til 

Ég var búinn að melda mig á viðburð á Facebook fyrir nokkrum árum. Það var svolítið fyndið að fatta það svona löngu seinna,“ segir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri hjá Íslandsbanka.Hann segist sannarlega spenntur fyrir því að dagsetningin sé loks runnin upp.„Ég reikna samt með að ég verði í vinnunni þegar klukkan slær 16.29, en ég ætla klárlega að horfa á myndina í dag,“ segir Björn. „Lengst af þótti mér tvisturinn sístur, en hún er alltaf að verða meira og meira í samhengi við nútímann. Þetta er ákveðin heimild um hvernig menn gáfu sér skáldaleyfi um framtíðina og það er gaman að horfa á þetta svoleiðis.“Hann viðurkennir að pitsustækkandi ofninn hafi heillað mikið, og vonbrigðin yfir að hann sé ekki meðal vor árið 2015 séu sannarlega til staðar. „Svo er tískan ekki jafn afgerandi og þeir spáðu fyrir um, en þetta er bara skemmtilegt.“

Kristrún hafði látið áminningu inn í símann sinn fyrir tveimur árum, svo hún myndi ábyggilega ekki gleyma þessum stórmerkilega degi.
Vá, þetta er framtíðin!

Ég setti þessa dagsetningu inn í símann minn fyrir tveimur árum og stillti á áminningu, svo er bara allt í einu komið að þessu,“ segir Kristrún Eyjólfsdóttir leikmyndahönnuður.Sjálf lærði Kristrún leikmyndahönnun hjá Lawrence G. Paull í American Film Institute og segir hún það sannarlega hafa verið skemmtilegt í ljósi aðdáunar hennar á myndunum frá því hún var stelpa.„Þegar maður er tólf, þrettán ára og horfir á þessar myndir þá kviknar á ímyndunaraflinu. Hvað ef? Hverju myndi maður sjálfur breyta með svona tímavél? Að horfa á þessar myndir gerir það að verkum að þú ert ekki bara að horfa, heldur hugsa ógeðslega mikið á sama tíma. Auðvitað bjóst maður við að þetta yrði svona eins og í myndunum, ég meina, maður átti vasadiskó og svo átti maður geislaspilara, og þá hugsaði maður „vá framtíðin er að koma og hún verður sko svona“,“ segir Kristrún og bætir við að hún muni sannarlega reyna að horfa á allar myndirnar í dag, annað sé eiginlega ekki hægt.

En hve sannspáir voru höfundar myndanna?Þetta rættist: 


 • Þráðlausir tölvuleikir eru staðreynd árið 2015.
 • 3D bíó sýningar og endalaus framhöld. Þó Jaws 19 hafi ekki enn dúndrast á hvíta tjaldið höfum við samt séð sjö Fast and the Furious og fleira í þeim dúr.
 • Spjaldtölvur. Þó þær hafi verið nokkuð klunnalegri en Ipadar nútímans, þá verður þessi spá að kallast skratti góð.
 • Videospjall, eða það sem við köllum að Skype-a eða Facetime-a.
 • Risaflatskjáir.
 • Gleraugu þar sem samskiptin fara fram og hægt er að horfa á sjónvarpið. og félagsleg einangrun í beinu framhaldi fyrir tilstilli tækninnar. Hér árið 2015 höfum við Google-gleraugun.
 • Möguleikinn á að horfa á margar stöðvar í einu, á risa flatskjá. Beint í mark.
Þetta klikkaði:

 • Bílarnir okkar fljúga ekki, ennþá.
 • Pitsustækkandi ofninn er ekki heldur til, því miður.
 • Tvö hálsbindi í einu eru ekki samfélagslega samþykkt.
 • Faxtækin eru ekki skilvirkasti samskiptamátinn okkar.
 • Sjálfþurrkandi föt. 
 • Við þurfum enn að viðra gæludýrin okkar nokkurn veginn sjálf. 
 • Sjálfreimandi skór eru ekki partur af daglegu lífi 2015 mannsins, þó einhver kunni að hafa dundað sér við að búa til slíka og einhver dæmi séu um slíkan skóbúnað. 
 • Lögfræðistéttin er ennþá meðal vor.

10/21/15! The Future is NOW! Doc Brown has a special message just for you. #BTTF2015

Posted by Back to the Future Trilogy on Tuesday, October 20, 2015

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.