Skoðun

Fordómar, fátækt og fjárlög

Þorbera Fjölnisdóttir og Sigríður Hanna Ingólfsdóttir skrifar
Á hverjum degi lendir fólk í áföllum (s.s. heilablóðfalli eða slysi) sem valda því að fólk verður að reiða sig á hið opinbera með framfærslu. Það geta því allir komist í þá stöðu að þurfa að sækja um örorkulífeyri. Þegar við missum starfsgetuna vegna afleiðinga sjúkdóma eða slysa, viljum við hafa öryggisnet sem grípur okkur.

Hvað er það í samfélagi okkar sem gerir það að verkum að fólk sem þarf að reiða sig á framfærslu frá hinu opinbera sökum afleiðinga alvarlegra sjúkdóma, slysa eða meðfæddra skerðinga er gert að lifa við fátæktarmörk? Er það vanþekking á stöðu örorkulífeyrisþega?

Staðalmyndir og fordómar

Skerðingar eru í mörgum tilvikum ósýnilegar. Tæp 40% örorkulífeyrisþega eru með geðraskanir og þær sjást yfirleitt ekki utan á fólki. Annar stór hópur öryrkja er með stoðkerfissjúkdóma (s.s gigt) og eru þeir sjaldnast sýnilegir. Staðalmynd örorkulífeyrisþega er hins vegar einstaklingur með sýnilega, líkamlega skerðingu – ósjaldan í hjólastól. Mjög algengt er að örorkulífeyrisþegar, sem eru með ósýnilegar skerðingar og passa því ekki inn í staðalmyndina, upplifi fordóma á þann hátt að réttmæti örorkumatsins er dregið í efa af leikmönnum. Eins eru sumir sjúkdómar þess eðlis að fólk er í mjög misgóðu ástandi eftir dögum. Einstaklingur þarf kannski einn daginn að nota hjólastól en ekki þann næsta.

Það velur enginn að verða örorkulífeyrisþegi. Læknar úrskurða um örorkumat að undangengnu ákveðnu ferli. Að upplifa fordóma og skilningsleysi umhverfisins ofan á heilsubrest veldur mikilli vanlíðan. Fólki á ekki að finnast það þurfa að réttlæta það gagnvart umhverfinu að hafa fengið örorkumat. Flestöll tengjumst við fólki sem hefur annaðhvort þurft að draga sig frá vinnumarkaði eða draga verulega úr atvinnuþátttöku vegna sjúkdóma eða slysa eða hefur aldrei fengið tækifæri til þátttöku.

Sveltistefna stjórnvalda

Fjármálaráðherra hefur nýlega réttlætt lágar upphæðir lífeyrisgreiðslna almannatrygginga með því að það þurfi að vera hvatar í kerfinu til að fólk fari í vinnu. Ekki er hægt að skilja orð ráðherrans öðruvísi en svo að það eigi að svelta örorkulífeyrisþega út á vinnumarkaðinn. Ef fólk getur ekki framfleytt sér af örorkugreiðslunum, eigi það að fara að vinna til að bæta fjárhaginn.

Lítum nánar á þetta. Í fyrsta lagi þá verður alltaf ákveðinn hluti örorkulífeyrisþega sem hefur enga eða mjög takmarkaða starfsgetu og er því algerlega útilokaður frá atvinnuþátttöku. Þessi hópur þarf að hafa tekjur til að geta lifað mannsæmandi lífi. Í öðru lagi þá geta miklar tekjutengingar í kerfinu valdið því að lágar viðbótartekjur bæta litlu eða engu við ráðstöfunartekjur lífeyrisþega. Í þriðja lagi eru mjög fá störf við hæfi í boði á vinnumarkaðinum, s.s. hlutastörf og störf þar sem tekið er tillit til sveiflna sem fylgja ýmsum sjúkdómum. Þannig að þó fólk hafi getu til að vinna hluta úr degi, þá eru störfin einfaldlega ekki til.

Rannsóknir sýna að lágar greiðslur kerfisins til framfærslu virka ekki hvetjandi heldur þvert á móti, þá halda þær fólki í fátæktargildru og félagslegri einangrun. Það þarf því að hækka upphæðir örorkugreiðslna almannatrygginga verulega og afnema þær miklu tekjutengingar sem eru í kerfinu. Í máli fjármálaráðherra í umræðu á Alþingi um að lífeyrir almannatrygginga hækki til samræmis við hækkun lægstu launa kemur fram að slíkt yrði til þess að fólk hefði frjálst val um hvort það er á bótum eða úti á vinnumarkaði. Það er algerlega fráleitt að heimfæra markaðslögmál um framboð og eftirspurn á skerðingar eða örorku. Það er ekki hægt að velja að fá gigt eða verða fyrir heilaskaða. Örorkugreiðslur sem ekki duga til framfærslu draga ekki úr tíðni sjúkdóma og slysa.

Tækifæri þingheims með fjárlögum 2016

Fjárlög 2016 eru nú til umræðu á Alþingi. Því hefur þingheimur tækifæri til að bæta verulega kjör lífeyrisþega öllu samfélaginu til hagsbóta. Þær prósentuhækkanir sem nefndar hafa verið duga engan veginn til að ná því markmiði að lífeyrisþegar geti lifað mannsæmandi lífi.

Almannatryggingar eru öryggisnet okkar allra og einn af mælikvörðum á velferðarsamfélagið. Hagsmunir fatlaðs fólks eru hagsmunir okkar allra því saman byggjum við eitt samfélag.




Skoðun

Sjá meira


×