Körfubolti

Margrét hættir að þjálfa landsliðið vegna Bryndísar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Margrét Sturlaugsdóttir með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum.
Margrét Sturlaugsdóttir með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum. mynd/kkí
Margrét Sturlaugsdóttir, þjálfari Keflavíkur í Dominos-deild kvenna í körfubolta, er hætt í þjálfarateymi kvennalandsliðsins, en hún hefur verið einn af aðstoðarþjálfurum þess undanfarin misseri.

Frá þessu greinir Margrét á Facebook-síðu sinni, en hún segir ástæðuna vera þá að hún vill að Bryndísi Guðmundsdóttur, fyrrverandi leikmanns Keflavíkur, líði vel á æfingum landsliðsins. Víkurfréttir segja frá.

Bryndís fór í hart við uppeldisfélag sinn fyrr í þessum mánuði og vildi losna undan samningi sem og varð. Hún samdi við Íslandsmeistara Snæfells á föstudagskvöldið og skoraði flautukörfu í fyrsta leik með Snæfelli á laugardaginn sem tryggði meisturunum sigur á nýliðum Stjörnunnar.

Bryndís skrifar undir við Snæfell á föstudagskvöldið.mynd/snæfell
Þessi ákvörðun Margrétar fer langt með að staðfesta að henni og Bryndísi kom ekki saman, en það var talin ástæða þess að Bryndís yfirgaf uppeldisfélagið sitt allt í einu þegar mótið var rétt að hefjast.

„Tók eitt erfiðasta símtal sem ég hef þurft að taka áðan, hringdi í Hannes formann KKÍ. Tilefnið var sorglegt en ég hef ákveðið draga mig út úr þjálfarateymi A-landsliðs kvenna. Erfið ákvörðun en alfarið mín ákvörðun og engin pressa frá neinum svo það sé á hreinu,“ segir Margrét á Facebook-síðu sinni.

„Þar sem ég hef einlæga trú á því að enginn sé stærri en liðsheildin (ég þar með talin) þá veit ég að þetta er rétt ákvörðun og tekin með það að leiðarljósi að Bryndísi Guðmundsdóttur fyrrum leikmanni Keflavíkur líði vel á landsliðsæfingum.“

„Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskan kvennakörfubolta að liðinu gangi vel og þar sem ég hef verið að þjálfa kvennakörfubolta síðan 1988 þá skiptir þetta mig meira máli en allt annað,“ segir Margrét.

Bryndís þarf því ekki að hafa samskipti við Margréti frekar en hún vill, en hún er nú komin til nýs liðs í Dominos-deildinni og hittir Margréti ekki á landsliðsæfingum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.