Enski boltinn

Markahæsti leikmaður ensku deildarinnar spilar úlnliðsbrotinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy.
Jamie Vardy. Vísir/Getty
Jamie Vardy, framherji Leicester City, hefur verið sjóðheitur það sem af er tímabili og vann sér meðal annars sæti í enska landsliðshópnum sem var tilkynntur var í gær.

Jamie Vardy hefur skorað sex mörk í sjö fyrstu umferðunum og er eins og er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með eins marks forskot á þá Riyad Mahrez og Callum Wilson.

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City, hefur nú sagt frá því að Jamie Vardy sé að spila meiddur en hann vilji ekki taka sér frí af ótta við að „kólna" niður.

Jamie Vardy er nefnilega úlnliðsbrotinn eftir að hafa meiðst í leik á móti Aston Villa 13. september síðastliðinn.

„Hann er með tvö brotin bein í úlnliðinum en læknaliðið hefur gert vel í að passa upp á hann," sagði Claudio Ranieri við BBC Sport.

Jamie Vardy skoraði tvö mörk í síðasta leik á móti Arsenal en hann hefur nú skorað í fjórum síðustu deildarleikjum Leicester liðsins. Vardy skoraði einnig á móti Bournemouth, Aston Villa og Stoke auk þess að skora í fyrstu umferð á móti Sunderland.

Vardy hefur skorað eða lagt upp mark í öllum sjö leikjum Leicester City í ensku úrvalsdeildinni þar sem af er á þessu tímabili.  

„Það eru fullt af leikmönnum sem vilja spila þegar þeim líður vel. Við leyfum honum að spila á meðan það er öruggt að hann geri ekki illt verra. Ef svo er þá er þetta í góðu lagi," sagði Ranieri.

Jamie Vardy er orðinn 28 ára gamall en hann hefur spilað með Leicester City frá 2012. Tímabilið í fyrra var hans fyrsta í ensku úrvalsdeildinni (5 mörk í 34 leikjum) og hann er þegar búin að gera betur í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×