Innlent

Bæjarstjórinn berst fyrir fleiri störfum í Bolungarvík

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Elías Jónatansson bæjarstjóri í Bolungarvík er sáttur við viðbrögð Landsbanka en vill fleiri störf til bæjarins.
Elías Jónatansson bæjarstjóri í Bolungarvík er sáttur við viðbrögð Landsbanka en vill fleiri störf til bæjarins.
„Við erum að bregðast við þeirri óánægju sem komið hefur fram og horfum einnig til þess að ákveðinn hópur viðskiptavina á erfitt um vik með að sækja þjónustu um lengri veg eða með öðrum leiðum en afgreiðslu á staðnum,“ segir Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri í Landsbankanum, um þá ákvörðun bankans að hverfa frá lokun útibúsins í Bolungarvík.

„Við getum ekki horft fram hjá því að sumir þurfa á meiri þjónustu að halda og teljum að þessar þarfir sé hægt að leysa með þátttöku í þjónustumiðstöð á Bolungarvík,“ segir hann.

Bæjarráð Bolungarvíkur sendi frá sér aðgerðaáætlun á mánudag vegna fyrirhugaðrar sameiningar útibúa Landsbankans í Bolungarvík, á Suðureyri og Þingeyri við útibú bankans á Ísafirði.

Elías Jónatansson bæjarstjóri fundaði með fulltrúum bankans á þriðjudag og í kjölfarið tók Landsbankinn ákvörðun um að gjaldkeraþjónusta henti vel sem hluti af framtíðarrekstri þjónustumiðstöðvar. Elías segist í baráttu fyrir fleiri störfum í bæjarfélaginu, ríkið hafi staðið í hagræðingaraðgerðum sem hafi komið illa niður á bæjarfélaginu.

„Við vitum að það hafa verið sett af stað ný verkefni á landsbyggðinni og við teljum að það sé komið að okkur.“

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, er Bolvíkingur og Elías segir hann hafa reynst vel í málinu. „Hann hefur staðið þétt við bakið á okkur og reynist okkur ávallt vel.“ 


Tengdar fréttir

Kveðja bankann með blómum og krönsum

Eina bankaútibúi Bolungarvíkur verður lokað á fimmtudag í hagræðingaraðgerðum Landsbankans. Bankinn verður kvaddur á táknrænan máta með blómum og krönsum. Tugir starfa hafa tapast á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×