Enski boltinn

McClaren segist ekki vera búinn að tapa klefanum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Steve McClaren sem tók við liði Newcastle í sumar segist ekki vera búinn að missa traust leikmanna sinna eftir erfiða byrjun á tímabilinu.

McClaren sem tók við liði Newcastle í sumar eftir tvö ár sem knattspyrnustjóri Derby County hefur ekki fengið neina draumabyrjun en félagið hefur ekki enn unnið leik í ensku úrvalsdeildinni.

Situr félagið ásamt nágrönnum sínum í Sunderland á botni ensku úrvalsdeildarinnar eftir sex leiki með aðeins tvö stig.

Greindu enskir miðlar frá því að hann hefði misst traust leikmanna sinna og að það væri mikil óánægja í klefanum, aðallega frá Cheick Tiote og Papiss Cisse en hann segir ekkert til í sögunum.

„Það eru engin vandamál til að tala um, ég þekki Cheick vel frá því við vorum saman hjá Twente og hann vill fá að spila en hann er ekki í nægilega góðu standi. Hann er ekkert fúlegg, hann vill bara fá að spila. Cisse er eins og hann er alltaf, hann er brosandi alltaf þegar ég sé hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×