Enski boltinn

Rodgers mætti ekki á blaðamannafund eftir leikinn í gærkvöldi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers er í heitu sæti þessa dagana.
Brendan Rodgers er í heitu sæti þessa dagana. vísir/getty
Liverpool komst með naumindum áfram í enska deildabikarnum í gær þegar liðið þurfti vítaspyrnukeppni til að leggja D-deildarliðið Carlisle af velli.

Þessi úrslit gerðu lítið til að treysta trú stuðningsmanna Liverpool á Brendan Rodgers, en eftir vonbrigða tímabil í fyrra fer liðið heldur ekki vel af stað þennan veturinn.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, ákvað að mæta ekki á blaðamannafund eftir sigurinn í gær heldur sendi Gary McAllister, aðstoðarmann sinn.

Það féll í grýttan jarðveg hjá blaðamönnunum sem vildu spyrja Rodgers út í þennan nauma sigur á liði sem er þremur deildum fyrir neðan Liverpool. McAllister var því spurður hvernig Rodgers liði.

„Hann, eins og aðrir, er ánægður með að vera kominn í næstu umferð,“ sagði McAllister.

Liverpool var miklu betra liðið í leiknum og átti yfir 50 skot. Það skoraði samt bara eitt mark á 120 mínútum.

„Mönnum var létt inn í klefa og við munum verða betri. Það jákvæða er að ná 50 skotum að marki og að komast áfram. Við vorum að koma okkur í skotfæri en við verðum að hitta oftar á markið,“ sagði Gary McAllister.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×