Enski boltinn

Rifrildi eftir tapið í deildabikarnum kveikti neista hjá Newcastle

Tim Krul.
Tim Krul. vísir/getty
Newcastle hefur ekki enn unnið leik í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, en liðið átti sinn besta leik á laugardaginn þegar það gerði jafntefli við Chelsea, 2-2.

Newcastle var betri aðilinn í leiknum í fyrri hálfleik og komst 2-0 yfir á 60. mínútu þrátt fyrir pressu frá gestunum. Chelsea tók svo öll völd á vellinum og jafnaði metin á síðustu ellefu mínútunum.

Fram að jafnteflinu gegn Chelsea leit Newcastle-liðið hræðilega út, en það féll úr leik í deildabikarnum gegn B-deildarliði Sheffield Wednesday. Eftir þann leik töluðu menn hressilega við hvorn annan.

„Stór orð voru látin falla eftir deildabikarleikinn. Við funduðum aðeins um þann leik. Frammistaðan þar var ekki nógu góð. Við vorum langt undir pari,“ segir Tim Krul, markvörður liðsins.

„Við þurfum fleiri menn sem láta í sér heyra, en því miður eru sumir leikmanna liðsins ekki þannig gerðir. Við þurfum samt á því að halda og það gerðist eftir tapið gegn Wednesday. Menn þurfa að taka meiri ábyrgð og það gerðum við,“ segir Krul.

„Frammistaðan gegn Chelsea var svar okkar og svona áttum við að spila síðustu tvær til þrjár vikurnar. En við sýndum að minnsta kosti eitthvað,“ segir Tim Krul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×