Körfubolti

Hörður Axel: Ætlum að koma út úr þessu móti með sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel í baráttunni gegn Serbíu.
Hörður Axel í baráttunni gegn Serbíu. Vísir/Valli
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu hafa nú spilað fjóra leiki á fimm dögum á Evrópumótinu í körfubolta í Berlín.

Íslenska liðið lenti í erfiðum leik í seinni hálfleik á móti Spánverjum í gær svipað og gegn Serbum daginn áður.

Aðeins einn leikur er eftir og hann er á móti Tyrklandi í dag. Tyrkir hafa unnið bæði Ítalíu og Þýskaland í spennandi leikjum en tapað fyrir Spáni og Serbíu.

„Nú er það bara Tyrkland. Við ætlum að reyna að koma út úr þessu móti með sigur. Við gefum allt í þennan leik gegn Tyrkjum og það er ekki morgundagur eftir þann leik. Nú getum við keyrt okkur alveg gjörsamlega út," sagði Hörður Axel Vilhjálmsson eftir leikinn á móti Spáni í gær.

Hörður Axel Vilhjálmsson viðurkenndi samt eftir leikinn í gærkvöldi að hann hafi gengið á vegg í upphafi leiks enda búinn að gefa óhemju mikið af sér í mótinu til þessa.

Hörður Axel hitti aðeins úr 1 af 8 skotum sínum gegn Spáni og náði ekki alveg að fylgja eftir frábærri frammistöðu sinni á mótinu.

„Nú er þessi Spánarleikur búinn og við byrjum bara að undirbúa okkur fyrir Tyrkina. Við förum upp á hótel og förum yfir þá. Við fáum eitthvað að sjá hvað þeir hafa fram að bjóða," segir Hörður Axel.

Tyrkirnir töpuðu fyrir Serbum í gær en sitja eins og er í fjórða og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í sextán liða úrslitunum.

Tyrkir eiga enn möguleika á öðru sætinu en þá þurfa Serbar að vinna Ítala, Þjóðverjar að vinna Spán og Tyrkir að vinna Ísland.

„Ég er ekki búinn að sjá einn leik með þeim enda hef ég bara alltaf verið að einbeita mér að næsta andstæðingi. Það verður gaman að sjá hvað þeir hafa upp á að bjóða," sagðir Hörður Axel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×