Körfubolti

Jón Arnór aðeins einu sinni orðið stjörnustjarfur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Michael Jordan er með þrjá í forgjöf en Jón Arnór 14. Hann ætlar sér þó að spila meira í framtíðinni og lækka forgjöfina.
Michael Jordan er með þrjá í forgjöf en Jón Arnór 14. Hann ætlar sér þó að spila meira í framtíðinni og lækka forgjöfina. Vísir/Getty
Þrátt fyrir að körfuknattleikskappinn Jón Arnór Stefánsson hafi ýmist spilað með eða gegn fremstu leikmönnum Evrópu og æft með einu stærsta félaginu í NBA segist hann alltaf hafa haldið ró sinni, nema einu sinni.

„Ég er aldrei að missa mig yfir hlutum til að byrja með. Ég missi ekki svefn nema kannski ef það er stress fyrir leiki,“ segir Jón Arnór. „Ég hef kannski einu sinni verið „starstruck“ og verið bara „vá, hvað er í gangi?“ Það var þegar ég hitti Jordan.“

Michael Jordan var átrúnaðargoð Jóns Arnórs eins og svo margra stráka af hans kynslóð. Sá besti þegar NBA æðið gekk yfir Ísland í upphafi tíunda áratugarins og að margra mati sá besti frá upphafi. Jón Arnór var staddur á viðburði í tengslum við góðgerðargolfmót sem liðsfélagi hans hjá Dallas Mavericks, Michael Finley, stóð fyrir.

„Það var verið að bjóða upp að spila hring með Jordan,“ segir Jón Arnór. Meðvitaður að þeir Jordan voru í sama rými ákvað sá besti frá Íslandi að finna þann besta og heilsa honum.

„Það var móment þar sem við horfðumst í augu. Ég spurði hann hvernig hann hefði það og hann svaraði „good“. Hann spurði á móti, svo nikkuðum við og búið,“ segir Jón og hlær.

Jón Arnór Stefánsson er í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar ræðir Jón um ástina, NBA-ævintýrið, eltingaleikinn við stúdentsprófið og ástæðu þess að hann hafnaði á lista með hryðjuverkamönnum. Viðtalið má sjá að neðan.


Tengdar fréttir

Lúxuslíf síðan ég byrjaði með Lilju

Jón Arnór Stefánsson hefur flakkað um heiminn með körfubolta í hendi í átján ár. Íþróttamaður ársins leiddi landsliðið á sitt fyrsta Evrópumót, var á lista yfir hryðjuverkamenn og ætlar að fagna stúdentnum fyrir fertugt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×