Innlent

Strákum og stelpum aldrei mismunað í Kópavogi

Una Sighvatsdóttir skrifar
Kvennaflokkar Breiðabliks hafa spilað meira á Kópavogsvelli en karlaflokkarnir.
Kvennaflokkar Breiðabliks hafa spilað meira á Kópavogsvelli en karlaflokkarnir.
Ellefu ára fótboltastelpur í Breiðabliki fengu ekki að spila úrslitaleik á aðalvelli bæjarins, ólíkt jafnöldrum þeirrra í strákaflokki í fyrra. Þjálfarinn gagnrýnir þetta, en vallarstjórinn segir konum og körlum aldrei mismunað í Kópavogi.

Pistill sem Margrét María Hólmarsdóttir þjálfari 5. flokks kvenna hjá Breiðabliki, skrifaði á Facbook hefur vakið athygli en þar gagnrýnir hún Kópavogsbæ fyrir að mismuna strákum og stelpum í 5. flokki, því stelpurnar fengu ekki að spila á aðalvellinum í úrslitum í gær.

„Það er náttúrulega mikil upplifun fyrir krakkana að fá að spila á þessum velli. Þau horfa á meistaraflokk karla og kvenna spila á vellinum, horfa á hetjurnar sínar, svo það er algjör draumur að fá að spila á aðalvelli,“ sagði Margrét María í samtali við fréttastofu í dag og bætti við. „Ég get náttúrulega ekki svarað fyrir Kópavogsbæ, það eina sem ég veit er að 5. flokkur karla lék sinn úrslitaleik hér í fyrra og það var sagt nei við stelpurnar í ár.“

Í pistlinum segir Margrét María að verið sé að mismuna kynjum með þessu.

 

Aldrei gert upp milli stráka og stelpna

Ómar Stefánsson, vallarstjóri Kópavogsvallar, segist taka umræðuna nærri sér enda sé jafnrétti honum hjartans mál. Sé tölfræðin skoðuð má sjá að kvennaflokkarnir hafa spilað töluvert meira á Kópavogsvelli heldur en karlaflokkarnir. „Það er alveg ljóst að hér í Kópavogi hefur ekki verið gert upp á milli stráka og stelpna í knattspyrnu,“ sagði Ómar í samtali við fréttastofu í dag.

Sjálfur er hann þó þeirrar skoðunar að 5. flokkur sé of ungur til að spila á aðalvellinum, því ekki eigi að gera upp á milli ellefu ára krakka eftir getu með slíkum hætti.

188 strákar spila með 5. flokki Breiðabliks, og 85 stelpur. Aðeins 7 leikmenn eru hinsvegar í byrjunarliðinu á leikjum. Stefna KSÍ um þjálfun barna og unglinga tiltekur að hjá 11 og 12 ára krökkum eigi áherslan að vera á að allir fái tækifæri til að vera með óháð getu. Hann segir því óeðlilegt að aðeins 7 úr svo stórum hópi barna fái að upplifa drauminn um að spila á aðalvellinum.

„Hvernig ætlarðu að velja ef þú ætlar bara að láta bestu 10 og 11 ára börnin fara þarna inn?“ spyr Ómar og bætir við: „Hvernig er valið í þetta 7 manna lið sem byrjar inni á vellinum? Þetta eru tæplega 100 stelpur að æfa, hvernig er valið? Er mælanleiki? Hver hleypur hraðast? Hver stekkur hæst? Hver skallar? Nei, getur verið möguleiki hvenrig liðsstilllingin er. Það eru alls konar svona hlutir sem ég spyr bara til baka, af því ég veit að við höfum aldrei mismunað hérna milli kvenna og karla í kópavogi.“

Derby-leikirnir endurskoðaðir

Aðspurður segir hann hugsanlegt að það hafi verið mistök að láta undan því að 5. flokkur karla fengi að spila á aðalvellinum til úrslita í fyrra. Það hafi hinsvegar verið gert þar sem um s.k. derby-leik var að ræða, þar sem tvö innanbæjarlið mættust, Breiðablik og HK.

„Það þykir alltaf merkilegt, alveg sama hvaða aldur er. En ég minni á að 2009 fékk 5. flokkur kvenna líka tvo leiki og það var út af vallaraðstæðum þá. Við buðum stelpunum ekki upp á að spila við lélegar vallaraðstæður, svo við færðum leikinn hérna inn á Kópavogsvöll. Þannig að það hafa komið svona undantekningar. En nú þarf ég að skoða það hvort að derby-leikirnir séu nokkuð sem ég á að vera að gefa eftir með.“

Ómar ítrekar að jafnræði með kynjunum sé nokkuð sem hann sem vallarstjóri passi mjög vel upp á. „Við bjóðum upp á bestu aðstöðu sem hægt er að bjóða upp á í knattspyrnu á Íslandi hérna í kópavogi og það er aldrei gert munur á milli stráka og stelpna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×