Körfubolti

Eyðimerkurgangan á enda | Fyrstu körfurnar hjá Pavel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel í leiknum í gær.
Pavel í leiknum í gær. Vísir/Valli
Einn leikmaður íslenska körfuboltalandsliðsins var búinn að bíða lengi eftir fyrstu körfunni sinni á Evrópumótinu í körfubolta og hann var ekki sá eini.

Pavel Ermolinskij komst loksins á blað á móti Serbíu í þriðja leik liðsins í gær en hann skoraði ekki körfu í fyrstu tveimur leikjunum á Evrópumótinu í Berlín sem voru á móti Þýskalandi og Ítalíu.

Pavel er mjög mikilvægur fyrir liðið og því var ekki bara hann búinn að bíða eftir að skotin hans færu að detta.

„Þetta er búin að eyðimerkurganga hjá mér að skjóta fyrir utan," segir Pavel en bætti svo strax við:

„Nei, nei. Í svona jöfnum leikjum eins og hinir voru þá er erfitt að fara til baka og hugsa um einhver mistök hjá sér hvort sem það voru skot sem klikkuðu eða tapaðir boltar. Þetta eru mistök sem maður gerir alltaf en þau stigmagnast á jafnstóru móti og þessu," segir Pavel.

Pavel klikkaði á öllum fimm skotunum sínum á móti Þýskalandi og öllum þremur skotum sínum á móti Ítalíu.

Pavel tók líka þrjú skot í fyrri hálfleiknum á móti Serbíu án þess að finna körfunetið. Þegar fyrsta skotið fór rétta leið í byrjun seinni hálfleiks þá var hann búinn að klikka á ellefu fyrstu skotunum sínum á Eurobasket.

„Þetta er bara spurningin um næsta leik og maður verður að vera fljótur að gleyma öllu," sagði Pavel.

Fyrsta karfa hans var þriggja stiga karfa og hann setti aðra slíka í þessum þriðja leikhluta og nýtti alls 2 af 3 þriggja stiga skotum sínum í Serbíuleiknum.

„Pavel setti líka niður tvö skot. Hann þarf á því að halda og við þurfum á honum að halda meira í sókninni," sagði Jón Arnór Stefánsson eftir leikinn í gær og hann sér fyrir sér að nú komi Pavel sterkari inn í þetta.

„Það má ekki gleyma því að Pavel er rosalega mikilvægur fyrir okkur varnarlega. Þetta hefur ekki verið að detta fyrir Pavel í sókninni en hann er einn okkar mikilvægasti maður og það verður flott að fá hann sterkan inn í síðustu tvo leikina," sagði Jón Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×