Körfubolti

Serbar enn sjóðandi heitir frá því í sigrinum á Íslandi í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milos Teodosic átti stórleik gegn Tyrkjum.
Milos Teodosic átti stórleik gegn Tyrkjum. Vísir/Getty
Milos Teodosic átti stórleik með serbneska landsliðinu í dag þegar liðið vann 19 stiga sigur á Tyrkjum, 91-72, í B-riðli Evrópukeppninnar en þetta var fyrsti leikur dagsins í riðli Íslands.

Serbía hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína á móti og verður búið að vinna riðilinn takist Ítölum ekki að vinna Þjóðverjar seinna í dag.

Milos Teodosic var með 17 stig og 13 stoðsendingar í leiknum en hann kveikti í sínu liði með þriggja stiga körfu í stöðunni 7-7 og fór síðan fyrir sýnngunni með hverri gullsendingunni á fætur annarri. Serbar settu í framhaldinu fimmtán stig í röð og voru að lokum 30-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Serbarnir voru greinilega ennþá sjóðheitir eftir frábæran seinni hálfleik á móti íslenska liðinu í gær. Serbar voru  komnir með 53 stig upp á töfluna og átján stiga forskot í hálfleik.

Tyrkir hafa nú unnið tvo leiki af fjórum en lokaleikur liðsins er á móti Íslandi. Tyrkir tryggja sig áfram og mögulega annað sætið í riðlinum með sigri á Íslandi á morgun.

Tyrkir hafa unnið réttu leikina á móti Ítölum og Þjóðverjum og það gæti vissulega hjálpað þeim þegar riðillinn verður gerður upp annað kvöld.

Hinn stóri og stæðilegi Miroslav Raduljica var stigahæstur í liði Serbíu með 20 stig en hann hitti úr 9 af 12 skotum sínum í leiknum. Nikola Kalinic skoraði 15 stig og gaf 4 stoðsendingar.

Ali Muhammed var stigahæstur hjá Tyrkjum með 16 stig og Semih Erden var með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×