Innlent

Ríkislögreglustjóri: Embættið fór ekki fram úr fjárheimildum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Haraldur Johannessen er ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen er ríkislögreglustjóri. Vísir/Stefán Karlsson
Ríkislögreglustjóri segir að embætti sitt hafi ekki farið fram úr fjárheimildum sínum fyrstu sex mánuði ársins líkt og kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Aukin fjárframlög til embættisins hafi ekki verið talin með í uppgjöri Fjársýslu ríkisins sem fréttin var byggð á.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að embætti ríkislögreglustjóra hafi farið ríflega 200 milljónir fram úr fjárheimildum sínum á fyrstu sex mánuðum ársins. Í fréttatilkynningu segir ríkislögreglustjóri að embætti sitt hafi ekki farið fram úr fjárheimildum, aukin fjárframlög úr ríkissjóði vegna eldsumbrotanna í Holuhrauni hafi ekki verið færðar yfir í rekstargrunn embættisins.

„Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 17. apríl sl. var samþykkt, á grundvelli tillögu samráðshóps ráðuneytisstjóra, að veita þeim stofnunum sem unnið hafa að vöktun, viðbúnaði og mælingum vegna Holuhrauns og eldsumbrotanna norðan Vatnajökuls aukin fjárframlög að upphæð 448,7 milljónir kr. árið 2015. Af þeirri fjárhæð var ákveðið að veita 108 m.kr. til embættis ríkislögreglustjóra. Fjárheimildir þessar voru ekki færðar af hálfu fjármálaráðuneytisins í rekstrargrunn embættisins þegar uppgjör Fjársýslu ríkisins fyrir fyrstu sex mánuði ársins var tekið saman og kynnt.“

Jafnframt segir að tekjur embættisins upp á 60 milljónir króna hafi vantað í uppgjör Fjársýslunnar. Ríkislögreglustjóri gerir ráð fyrir rekstur embættis ríkislögreglustjóra verði í jafnvægi við árslok en í lok árs 2014 hafi verið um 30 milljón kr. halli á rekstri lögreglubifreiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×