Innlent

Íslendingur í Kína yfirheyrður af lögreglu vegna uppistands

Bjarki Ármannsson skrifar
„Ég hef aldrei upplifað neitt svona áður,“ segir Helgi Steinar Gunnlaugsson, nemi við háskóla í Peking í Kína, sem var yfirheyrður af lögreglu í gær vegna gruns um að óæskileg ummæli um kínversk stjórnvöld væru látin falla á uppistandskvöldi sem hann skipulagði. Að sögn Helga voru hann og félagar hans beðnir um að framvísa skilríkjum og þurftu að hætta við sýninguna þegar hún var aðeins hálfnuð.

Tekinn tali af óeinkennisklæddum lögregluþjónum

Helgi hefur búið í Kína í rúmlega þrjú ár og er nú í meistaranámi í alþjóðasamskiptum í Peking. Hann, ásamt nokkrum öðrum útlendingum, hefur dundað sér við að flytja uppistand öðru hverju um reynslu sína af Kína og Kínverjum. Í gærkvöldi átti að fara fram uppistandssýning á ensku, sem Helgi skipulagði, á bar þar sem hópurinn var að koma fram í fyrsta sinn.

„Þetta er búið að ganga mjög vel,“ segir Helgi um sýningarnar hingað til. „Við erum eiginlega búin að fylla barinn öll kvöld sem við höfum verið með þetta og á þremur árum hefur aldrei verið neitt vesen. Fyrr en í gær.“

Sýningin fór vel af stað en um tíu mínútum áður en Helgi átti að fara á svið tjáði eigandi honum að tveir menn vildu tala við hann. Þeir reyndust vera óeinkennisklæddir lögregluþjónar á vegum kínversku útlendingaeftirlitsins.

„Þeir spurðu mig bara strax: „Hvað ertu að gera hérna, hver sér um þetta og hvernig kom þetta upp á borðið?“ Ég útskýrði að þetta væri bara uppistand, hópur útlendinga sem hittist reglulega og talar um reynslu okkar í Kína og allt sem brennur okkur á hjarta. Og þeir spyrja þá: „Hvað nákvæmlega er fólk að segja?“

Öryggisgæsla við Torg hins himneska friðar í Peking. Ritskoðun stjórnvalda er mjög algeng í Kína.Vísir/AFP
Lögregluþjónarnir sögðu að þeim hefði borist tilkynning um að verið væri að segja slæma hluti um kínverska kommúnistaflokkinn. Upphófst þá langt samtal með eigendum barsins, sem sögðu Helga að fara eftir öllu sem lögreglan skipaði. Helgi og félagar hans voru beðnir um að sýna vegabréf og lögregluþjónarnir hótuðu því að láta loka barnum.

Ekki verið að segja neitt stuðandi

„Eftir svona hálftíma sögðu þeir að við mættum vera með uppistand aftur í næstu viku en við þyrftum að vera búnir fyrir ákveðinn tíma og ef að fleiri tilkynningar bærust um að við værum að tala um kommúnistaflokkinn eða Kína, þá myndu þeir hjóla í okkur,“ segir Helgi. „Við ákváðum að gefa þessu bara mánaðarpásu frá þessum stað.“

Sýningin var þannig blásin af eftir að aðeins fimm af ellefu höfðu fengið að fara á svið. Helgi segir uppistandarana tala um hitt og þetta en engin hafi verið að segja neitt stuðandi um kínversk stjórnvöld.

„Við tölum aðallega um eitthvað fyndið sem við höfum lent í, til dæmis við að kenna,“ segir Helgi, en margir útlendinganna eru enskukennarar. „Ég er eiginlega sá eini sem talar um stjórnmál, af því að það er það sem ég er að læra. En það er ekkert á neinn grimman hátt. Þetta er alltaf bara eitthvað fyndið úr fréttunum og svona.“

Helgi segir að uppistandskvöldin þeirra séu tæknilega séð öll ólögleg, en ekkert sé vanalega gert í því þar sem þeir eru útlendingar. Hann segir að hugmyndin að baki uppistandi eins og við þekkjum það sé nær óþekkt í Kína og sýningin gæti þess vegna hafa vakið upp grunsemdir. Jafnframt séu yfirvöld mögulega órólegri núna þegar illa gengur en oft áður.

„Einn félagi minn hér í Kína þekkir aðeins betur til og hann segir að þetta gæti mögulega tengst verðbréfahruninu,“ segir Helgi. „Þegar eitthvað svona stórt gerist í Kína, eða á mikilvægum dagsetningum, þá eykst oft gæslan hér í borginni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×