Innlent

Þúsund lítra olíutankurinn hársbreidd frá því að springa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bíllinn var að flytja plastglugga úr Norrænu þegar eldurinn kom upp.
Bíllinn var að flytja plastglugga úr Norrænu þegar eldurinn kom upp. MYND/ARNAR ÞÓR INGÓLFSSON
Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í flutningabíl Nesfrakt í gærkvöldi. Bíllinn var staddur skammt utan við Höfn í Hornafirði en hann var á leið frá Seyðisfirði til Reykjavíkur með fullan farm af plastgluggum úr Norrænu.

Að sögn Arnar Þórs Ólafssonar hjá Nesfrakt leikur grunur á að kviknað hafi í bílnum út frá sprungnu framdekki.

MYND/ARNAR ÞÓR ÓLAFSSON
„Eldurinn kom úr dekkinu þegar bílnum var keyrt upp á spýtukubb til að hækka hann, svo að koma mætti tjakki undir,“ segir Arnar. „Það virðist hafa verið gífurlegur hiti innan í dekkinu, jafnvel eldur, sem við gátum ekki séð áður en við byrjum að færa bílinn og það var í raun ekkert sem gaf til kynna að hætta væri á ferðum.“

Arnar segir að þó að bíllinn hafi skíðlogað og sé nú óökufær hafi þó farið betur en á horfðist, engin slys hafi orðið á fólki. Vindáttin hafi verið hagstæð svo að farmurinn slapp óskaddaður. „Vagninn var fullur af plastgluggum og það hefði náttúrulega komið svaðalegt bál ef eldurinn hefði læst sig í þeim.“

Þá hafi þúsund lítra olíutankur bílsins, sem var svo gott sem fullur, verið orðinn mjög heitur áður en slökkviliðið á Höfn náði að ráð niðurlögum eldsins. „Slökkviliðsmennirnir sögðu að eldurinn hefði fært sig aðeins aftur hefðu þeir ekki ráðið neitt við neitt. Eldur í þúsund lítra tanki er ekkert grín,“ segir Arnar.

MYND/ARNAR ÞÓR INGÓLFSSON



Fleiri fréttir

Sjá meira


×