Innlent

Nefndarstörf vegna stöðugleikaskatts ganga vel

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Vísir
Nefndarstörf í efnahags- og viðskiptanefnd ganga vel samkvæmt formanni nefndarinnar en nú er til umræðu frumvarp um stöðugleikaskatt. Verði frumvarpið samþykkt og fjármagnshöft afnumin má gera ráð fyrir því að efnahagur Íslands taki að vænkast.

„Við vorum að taka við gestum í þessum málum varðandi stöðugleikaskattinn. Við erum ekki búin með allar gestakomur en fáum vonandi tíma til að klára það á morgun,” sagði Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar eftir að fundi hennar lauk í morgun.

„Það hafa komið ýmsar gagnlegar ábendingar. Það fer að skýrast myndin í þessu á morgun.”

Skjáskot af vefsíðu Alþingis sýnir hvar málið er statt en það er eitt af stóru skrefunum í uppgjörinu við hrunið.Vísir/Skjáskot
Eftir að nefndin hefur hitt alla þá sem hafa innlegg varðandi frumvarpið fer nefndin í að viða að sér efni í nefndaálit. „Það getur tekið nokkra daga. Við byrjum á morgun að ræða málið efnislega eftir að hafa kynnt okkur öll sjónarmið og ábendingar. Nefndarstörf hafa gengið vel.“

Málið hefur farið í gegnum fyrstu umræðu á þinginu en á nokkra daga eftir í nefnd. Innsend erindi og umsagnir um frumvarpið eru 23 talsins og umsagnarbeiðnir 55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×